Tveir enn í varðhaldi vegna manndráps

Mennirnir tveir hafa verið úrskurðaðir í varðhald.
Mennirnir tveir hafa verið úrskurðaðir í varðhald. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir einstaklingar, sem eru grunaðir um að hafa átt þátt í manndrápi á Ólafsfirði á mánudaginn síðastliðinn, sitja enn í gæsluvarðhaldi. 

Óskaði lögregla eftir gæsluvarðhaldi yfir þremur einstaklingum síðastliðinn mánudag en síðan þá hefur einum verið sleppt.

Rannsókn er í fullum gangi og miðar vel, að því er fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Einn látinn laus 

Mánudaginn 3. október var gerð krafa um gæsluvarðhald yfir þremur einstaklingum, er hafa réttarstöðu sakbornings í málinu, og úrskurðaði Héraðsdómur Norðurlands eystra þá alla í vikulangt gæsluvarðhald. 

Tveir þeirra kærðu úrskurðinn til Landsréttar og seinnipart miðvikudagsins staðfesti Landsréttur gæsluvarðhald yfir öðrum. Var hinn látinn laus í kjölfarið. 

Krufningu lokið en margt óljóst

Skýrslutökur yfir sakborningunum hafa staðið yfir í gær og í dag og þá hefur réttarkrufning farið fram á hinum látna. Ekki er vitað hvenær niðurstöður hennar liggja fyrir en það getur tekið nokkrar vikur að sögn lögreglu.
Rannsókn lögreglu miðast að því að leiða í ljós hvað átti sér stað í umrætt sinn en enn eru ýmsir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá. 

mbl.is