„Við munum halda áfram að hafa hátt“

Fleiri hundruð framhaldsskólanemar söfnuðust saman fyrir framan MH í morgun.
Fleiri hundruð framhaldsskólanemar söfnuðust saman fyrir framan MH í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var eiginlega í smá sjokki, á góðan hátt. Það var svo ótrúlega fallegt að sjá svona marga,“ segir Hrefna Tryggvadóttir, forseti nemendafélags MH, í samtali við mbl.is, eftir fjölmenn mótmæli fyrir framan MH í morgun. Ætla má að fleiri hundruð hafi verið saman komin fyrir fyrir framan skólann þegar mest var. Bæði nemendur úr MH og fleiri skólum.

Nemendur gengu út úr kennslustund klukkan 11 til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning og söfnuðust í kjölfarið saman fyrir framan aðalinngang skólans, þar sem haldnar voru ræður.

Tilgangur mótmælanna er að reyna að knýja fram breytingar á viðbragðsáætlun allra skóla, þannig að tekið verði á kynferðisbrotamálum af sömu alvöru og öðrum ofbeldismálum. Kröfur nemenda um breytingar eru meðal annars þær að séð verði til þess innan skóla að þolendur þurfi ekki að umgangast gerendur. Komi fram kæra á hendur nemanda vegna kynferðisbrots gagnvart öðrum nemanda verði þeim fyrrnefnda vísað úr staðnámi í fjarnám á meðan málið er til rannsóknar. Þá er einnig kallað eftir því að kynjafræði verði gerð að skylduáfanga í öllum skólum og að fræða verði nemendur um mörk og samþykki, sem forvörn gegn kynferðisbrotum.

Steinn Jóhannsson, rektor MH, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og …
Steinn Jóhannsson, rektor MH, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mættu á mótmælin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afsökunarbeiðni er ekki nóg

Hrefna segir það skipta miklu máli að finna að það sé hlustað. Það hafi því verið ánægjulegt að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafi mætt á mótmælin.

„Það er mjög gott að hann hafi komið og hlustað á það sem við höfum að segja. Þetta tókst mjög vel. Nú bíðum við bara eftir að sjá einhverjar breytingar eiga sé stað. Við vonum að hann hafi tekið þetta til sín.“

Ásmundur tók til máls á mótmælunum og sagði bæði stjórnvöld og skólameistara vera að hlusta og þau vildu gera betur. Þá baðst hann afsökunar á því að ekki hefði verið hlustað í öll þessi ár og hvatti nemendur til að láta áfram í sér heyra.

Hrefna segir vissulega mikilvægt að fá afsökunarbeiðni en það sé alls ekki nóg. „Aðalmálið er, og það sem fólkið vill, er að sjá breytingar.“

Sýnir kraftinn í ungu fólki

Hún hefur trú á því að þessi mikli kraftur og samstaða nemenda muni skila sér í breytingum til batnaðar.

„Við munum halda áfram að hafa hátt og ekki láta þagga niður í okkur. Þá held ég að við munum sjá einhverjar breytingar. Ég hef trú á því. Við megum alls ekki hætta að tala um þetta núna þó hann hafi komið og sagst vera að hlusta á okkur.“

Hrefna segir framhaldsskólanema víða um land hafa gengið út úr kennslustundum til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning. Þá hafi samstöðumótmæli farið fram, meðal annars við Menntaskólann að Laugarvatni og í Lystigarðinum á Akureyri, þar sem framhaldsskólanemendur á Akureyri fjölmenntu.

„Það sýnir bara hve mikill kraftur býr í ungu fólki. Þetta var ótrúlega fallegt og flott.“

Skólastjórnendur taka málið alvarlega

Nemendur MH fengu í gær afsökunarbeiðni frá skólastjórnendum eftir að mikil gagnrýni hafði komið fram vegna aðgerðarleysis stjórnenda í nokkrum málum sem tengjast kynferðisofbeldi innan skólans. Nem­end­ur voru meðal ann­ars ósátt­ir við að þolend­ur þyrftu að mæta gerend­um sín­um á göng­um skól­ans.

Hrefna segir ljóst að skólastjórnendur hafi tekið gagnrýnina til sín og gerir ráð fyrir að breytingar verði gerðar á verklagi innan MH.

„Ég veit að skólastjórnendur taka þessu máli alvarlega. Þau vilja breytingar eins og við og eru að hlusta á það sem nemendur er að segja og gera ýmislegt til að bæta úr stöðunni.“

mbl.is