Appelsínugul viðvörun í gildi fyrir helgina

Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun vegna veðurs er í gildi fyrir Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og miðhálendi. 

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Þá er í gildi gul veðurviðvörun fyrir aðra landshluta.

Vindaspáin á landinu klukkan 12 á sunnudag.
Vindaspáin á landinu klukkan 12 á sunnudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Á morgun kemur lægð inn á Grænlandshaf. Henni fylgir suðaustan kaldi eða stinningskaldi og rigning með köflum eða skúrir. Hiti verður 3 til 9 stig yfir daginn. Norðaustanlands verður heldur svalara og þar gæti úrkoman fallið sem slydda að sögn veðurfræðings.


Á sunnudag verður lægðin við austurströndina og dýpkar ört. Þá er útlit fyrir að það gangi í norðan hvassviðri eða storm með mikilli slyddu eða snjókomu á Norður- og Austurlandi. Þar verður ekkert ferðaveður ef að líkum lætur. Sunnanlands verður úrkomulítið en þar gæti samt sem áður orðið mjög hvasst, til að mynda undir Vatnajökli.

Það er enn nokkur breytileiki í spám í sambandi við þetta veður, t.d. benda nýjustu spár til þess að vesturhluti landsins sleppi betur en útlit var fyrir í gær. Gæti það hins vegar hæglega breyst aftur og er fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspám, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is