Einn situr eftir í gæsluvarðhaldi

Ólafsfjörður.
Ólafsfjörður. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Rannsókn á málinu sem kom upp á Ólafsfirði sl. mánudag, þar sem maður lést í heimahúsi, miðar vel. Frá þessu greinir lögreglan á Norðurlandi eystra í tilkynningu.

Vettvangsrannsókn sé lokið og nú sé verið að vinna úr gögnum frá henni. Þá sé búið að taka margar skýrslur af bæði vitnum og grunuðum.

„Heildarmyndin er smám saman að skýrast og teljum við okkur hafa ágæta mynd af atburðarásinni í aðdraganda þess að maðurinn lést. Við ákváðum í dag að láta einn sakborninganna lausan úr gæsluvarðhaldi, þar sem það þótti ekki lengur líklegt til að spilla rannsóknarhagsmunum að hann gengi laus. Eftir situr einn í gæsluvarðhaldi vegna þessa máls. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til nk. mánudags.“

Vikur eða mánuðir

 Ákvörðun um hvort farið verður fram á að framlengja gæsluvarðhaldið verði tekin um helgina.

„Rannsókn af þessu tagi er umfangsmikil, flókin og tímafrek. Hún heldur nú áfram með yfirheyrslum og greiningu gagna.

Enn eiga ýmsar réttarlæknisfræðilegar niðurstöður eftir að berast okkur og niðurstöður úr ýmsum tæknirannsóknum. Það geta liðið vikur eða mánuðir uns öll kurl verða komin til grafar í þessu máli og sennilega ekki margt sem við getum eða megum upplýsa um til viðbótar meðan málið er á rannsóknarstigi.“

mbl.is