Gagnrýnin endurspegli hatrammar deilur

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það ekki rétt að hann hafi hótað að draga VR og Landssamband verslunarmanna úr Alþýðusambandi Íslands fái hann ekki stuðning í embætti forseta ASÍ, eins og haldið var fram í gagnrýni leiðtoga verkalýðsfélaga. 

Þá kveðst hann ósammála því að hann verði að segja sig frá sem formaður samninganefndar VR í komandi kjaraviðræðum ef hann verði kjörinn forseti ASÍ. Telur hann það ekki leiða til hagsmunaáreksturs.

Þá kveðst hann hafa gefið það út að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður félagsins en það væri mikill skaði fyrir félagið að ganga til kosninga á þessum tímapunkti þegar kjaraviðræður eru hafnar.

Endurspegli hatrammar deilur

„Þessi grein endurspeglar verkefnið og hversu krefjandi það er að fara í þessa vegferð með það að leiðarljósi að sameina hreyfinguna. Það er meginmarkmiðið að reyna að sækja fram sem ein breiðfylking. Þetta endurspeglar þær hatrömmu deilur sem hafa verið innan hreyfingarinnar á vettvangi Alþýðusambandsins síðustu ár,“ segir Ragnar Þór inntur eftir viðbrögðum við gagnrýni leiðtoga 12 verkalýðsfélaga innan ASÍ, sem birtist í gær á Vísi.

Ragnar Þór segir viðbúið að það kæmi gagnrýni á framboð hans úr þessum ranni ASÍ. Ríflega 40 verkalýðsfélög eigi þó aðild að sambandinu og telur hann gagnrýnina ekki endurspegla viðhorf allra. 

„Valkostirnir eru skýrir. Þetta snýst um það hvort Alþýðusambandið lifi af þessar stóru hremmingar eða ekki. Það er eiginlega stóra spurningin sem þingfulltrúar þingsins munu þurfa að svara. Síðan verður niðurstaðan eftir því. Förum við sameinuð til leiks á þessum vettvangi eða munu félögin sækja fram með sínar kröfur hvert í sínu lagi.“

Fulla trú á að það takist að sameina hreyfinguna

Hann segir það eiga eftir að koma í ljós hvort að nýjum forseta takist að verða sameiningartákn hreyfingarinnar. Hann segir það augljóslega verða krefjandi verkefni fyrir þann sem fær þann kyndil að bera ætli hann sér að ná því markmiði að sameina hreyfinguna. Hann hefur þó fulla trú á því að það takist.

„Ég væri augljóslega ekki að bjóða mig fram til verksins ef ég hefði ekki fulla trú á því að mér takist að ná því markmiði en það gerist ekki yfir nóttu. Mér tókst að gera þetta innan VR. Innan okkar félags hafa verið mikil átök í gegnum árin. Þegar ég næ kjör 2017 þá er ég fimmti formaður félagsins á tíu árum.“

Hafa endurskoðað aðild að ASÍ

Í gagnrýni verkalýðsleiðtoganna á Ragnar kom fram að hann hafi hótað því „að ef hann fengi ekki stuðning í embættið þá myndi hann draga VR og Landsamband verslunarmanna út úr ASÍ.“

„Ég veit ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Ragnar spurður út í ummælin.

„Ég kannast ekki við þetta en hins vegar hafa VR og fleiri félög innan Alþýðusambandsins verið að endurskoða aðild sína að Alþýðusambandsins. Og það er ekkert ég sem er geri það, það er stjórn félagsins. Við höfum velt þessari spurningu oftar en einu sinni upp hvort að hagsmunum okkar sé betur borgið inn á vettvangi Alþýðusambandsins eða ekki. Og það hafa fleiri félög gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert