Læti í æstum tölvuleikjaspilara

Tilkynnt var um öskur og læti að berast frá íbúð í hverfi 200 í Kópavogi. Í ljós kom að þar var maður að spila tölvuleiki og ætlaði hann að róa sig niður.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um umferðarslys í hverfi 201 í Kópavogi og að sá sem olli tjóninu væri sofandi undir stýri. Í ljós kom að hann var ölvaður og var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð í sýnatöku. Í framhaldinu var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Verulega ölvaður á rafskútu

Tilkynnt var um að aðili hefði dottið af rafskútu í miðbæ Reykjavíkur. Hann var verulega ölvaður og með áverka á andliti. Hann var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar og blóðsýnatöku vegna gruns um ölvun við akstur, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um útköll í gærkvöldi og í nótt. 

Lögreglunni barst einnig tilkynning um slagsmál á skemmtistað í miðbænum. Lögreglan mætti á vettvang og voru slagsmálin þá yfirstaðin. Ekki er vitað hvort einhver hafi slasast.

Skátar kveiktu eld

Tilkynnt var um að unglingar væru að fikta með eld á skólalóð í Vesturbænum. Í ljós kom þarna voru skátarnir að leik og búið var að slökkva eldinn.

Tilkynnt var um mann til vandræða í verslunarmiðstöð í hverfi 201 í Kópavogi. Honum var vísað út.

Hjólaði á staur

Reiðhjólaslys varð í Mosfellsbæ. Þar hafði aðili hjólað á staur og dottið fram fyrir sig. Hann hlaut minniháttar áverka.

Einnig var tilkynnt um umferðaróhapp í Mosfellsbæ.  Ágreiningur var á vettvangi en engin slys urðu á fólki.

Tilkynnt var um að ekið hefði verið á ljósastaur á Kjalarnesi. Kom í ljós að ökumaðurinn var ölvaður og neitaði hann að blása í áfengismæli lögreglu. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar máls.

mbl.is