Ólafur lét sjálfur vita af ofgreiddri þóknun

Ólafur sat í Stýrinefnd raf- og raftækjaúrgangs og fékk aukagreiðslur …
Ólafur sat í Stýrinefnd raf- og raftækjaúrgangs og fékk aukagreiðslur fyrir það frá árinu 2012. Árið 2015 féll sú vinna undir aðalstarf hans og voru aukagreiðslurnar felldar niður. Hann hélt samt áfram að fá greiddar sömu aukagreiðslur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs lét sjálfur vita af því árið 2015 að hann hefði fengið greidda þóknun fyrir setu í Stýrinefnd raf- og raftækjaúrgangs eftir að nefndin var lögð niður og starf hennar varð hluti af aðalstarfi hans sem framkvæmdastjóri sjóðsins. Ríkið hélt hins vegar áfram að greiða þóknunina og má því ætla að móttaka hennar síðustu sjö ár hafi verið í góðri trú. 

Þetta er meðal þess sem lesa má í áliti lögmanns sem unnið var fyrir stjórn Úrvinnslusjóðs vegna ofgreiddra launa framkvæmdastjórans, Ólafs Kjartanssonar, en þar segir jafnframt að í ljósi þess sem almennt gildi sé nánast útilokað að láta starfsmenn sem taka við greiðslum í góðri trú endurgreiða þær. Nemur ofgreiðslan samtals yfir tímabilið um 10 milljónum króna.

Stjórnin Úrvinnslusjóðs segist auk þess ekki hafa haft nein afskipti af launamálum framkvæmdastjórans og telur sig ekki bæra til að taka frekari afstöðu til málsins og vísar því til Fjársýslu ríkisins til úrlausnar.

Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.
Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.

Fyrst aukastarf en síðar hluti af aðalstarfi

Í gær var greint frá því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði sent bréf á stjórn Úrvinnslusjóðs um að Ólafur hefði fengið um 121 þúsund krónur greiddar fyrir störf sín í fyrrnefndri stýrinefnd frá árinu 2012. Til ársins 2015 var þetta aukastarf, en eftir að lögum um úrvinnslugjald var breytt var nefndin lögð niður og færðust verkefni hennar undir verksvið sjóðsins og urðu störf hans fyrir stýrinefndina hluti af aðalstarfi hans.

Í framhaldinu fékk stjórn sjóðsins Láru V. Júlíusdóttur, hæstaréttarlögmann og sérfræðing í vinnurétti, til að skrifa álit á ábyrgð Ólafs á ofgreiðslu þóknunarinnar sem og stöðu stjórnarinnar.

Í áliti sínu fer Lára yfir sögu málsins frá árinu 2012 þegar Ólafur tekur sæti í nefndinni og svo breytingarnar sem verða í kjölfar breytinga á lögum um úrvinnslugjald árið 2015 og ákvörðunar kjararáðs um laun framkvæmdastjórans.

Ólafur benti Fjársýslunni á greiðsluna

Eftir þessa breytingu, þar sem aukaþóknunin átti að fella út, var Ólafur í bréfasamskiptum við Fjársýsluna þar sem hann tók fram að hann hefði fengið aukagreiðsluna fyrir setu í stýrinefndinni. Var það hluti af svari hans við fyrirspurn Fjársýslunnar í tengslum við endurskoðun launa stjórnarmanna í stýrinefndinni. Þrátt fyrir þessa athugasemd fékk hann áfram óbreyttar þóknanagreiðslur.

Lára Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, skrifaði álit fyrir …
Lára Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, skrifaði álit fyrir stjórn Úrvinnslusjóðs og segir að Ólafur hafi mátt vera í góðri trú um móttöku greiðslunnar. Mynd/Af vef ll3.is

Þremur árum síðar er kjararáð lagt niður og fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur verkefnin yfir. Þar fer fram enn ein skoðunin á launakjörum framkvæmdastjórans og engar breytingar verða á.

Nánast útilokað að endurheimta ofgreiddu launin

Í álitinu segir Lára að almennt gildi það þegar um ofgreidd laun sé að ræða að nánast útilokað sé fyrir atvinnurekanda að endurheimta þau sé viðtakandi í góðri trú um að hún sé rétt. Vísað er til þess að greiðandi hafi oft yfirburðaaðstöðu til að meta hvað sé rétt greiðsla, enda annist launagreiðandi útreikninga, sem stundum geti verið mjög flóknir eða byggist á viðamiklum reglum. Segir „ofgreiðslur launa sem stafa af misskilningi um staðreyndir verða almennt ekki endurheimtar úr hendi grandlausra viðtakenda.“

Lýst er í álitinu hvernig ákveðið hafi verið að breyta verksviði framkvæmdastjórans og ekki greiða fyrir setu hans í umræddri nefnd. Sú ákvörðun hafi væntanlega verið send til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þaðan áfram til Fjársýslu ríkisins. Þrátt fyrir það fékk hann áfram greidda þóknunina.

Telur Ólaf hafa verið í góðri trú

Eins og fyrr segir bregst ráðuneytið svo við í ágúst á þessu ári og sendir bréf á stjórn Útvinnslusjóðs um ofgreiðslu til Ólafs. Segir Lára að í ljósi aðstæðna verði að telja að hann hafi verið í góðri trú um að hann ætti rétt á umræddri þóknun. Hann hafi getað treyst því eftir athugasemdir og þegar ríkið hélt áfram að greiða honum þóknunina að þetta væri í góðri trú.

Segir Lára að lokum að þrátt fyrir að stjórnin hafi ábyrgð á starfsemi Úrvinnslusjóðs, þá hafi hún ekki skipt sér af launamálum starfsmanna fyrir utan eitt skipti árið 2012. Ekki sé því hægt að varpa ábyrgð á ofgreiðslu á stjórnina og bent á að Fjársýslan sjái um fjármál ríkisins, meðal annars launaútreikninga.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í kjölfar umfjöllunar um málið sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að greiðslur til Ólafs hafi verið sýnilega umfram það sem kjör hans gerðu ráð fyrir. Því hafi verið óskað eftir skýringum frá stjórn sjóðsins og svar þaðan hafi borist 15. september. Í kjölfarið hafi ráðuneytið sent erindi til Ólafs og var honum veittur frestur til svara til 13. október.

mbl.is