Verða alltaf að loka versluninni

Þessari verslun þurfti Krónan að loka í rafmagnsleysi dagsins.
Þessari verslun þurfti Krónan að loka í rafmagnsleysi dagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í svona tilfellum þurfum við eðlilega að loka versluninni en við erum þannig upp byggð að við erum með vararafstöðvar við kassana okkar,“ segir Ólafur Rúnar Þórhallsson, forstöðumaður rekstrar og þjónustu hjá verslunum Krónunnar, í samtali við mbl.is, inntur eftir áhrifum á starfsemina við rafmagnsleysi.

Ólafur Rúnar Þórhallsson, forstöðumaður rekstrar og þjónustu hjá Krónunni.
Ólafur Rúnar Þórhallsson, forstöðumaður rekstrar og þjónustu hjá Krónunni. Ljósmynd/Krónan

Segir Ólafur vararafstöðvarnar duga í 45 mínútur til klukkustund sem gefi starfsfólkinu færi á að afgreiða þá viðskiptavini sem í versluninni eru og tæma hana. „Við verðum sem sagt alltaf að loka þegar svona kemur upp en stærsti höfuðverkurinn okkar í rafmagnsleysi er í raun hvað við erum tæknivædd, allt liggur niðri þegar rafmagnið fer,“ heldur Ólafur áfram.

Kalla þarf til mannskap

Nefnir hann kælikerfi verslananna sem haldi hvort tveggja kælum og frystum í eðlilegri starfsemi.

„Sem betur fer er þetta þannig nú orðið að flestir kælar og frystar eru lokaðir sem lengir auðvitað þann tíma sem vörurnar haldast kaldar en svo þarf að kalla til mannskap sem kemur á staðinn til að fylgja ferlinu eftir þegar rafmagnið kemur á aftur, svo sem kælimenn og rafvirkja sem hafa eftirlit með því að allt virki eðlilega,“ útskýrir Ólafur.

„Hve þungt er yfir bænum,“ söng Bubbi Morthens fyrir rúmum …
„Hve þungt er yfir bænum,“ söng Bubbi Morthens fyrir rúmum 40 árum á Ísbjarnarblúsplötu sinni og hér er vissulega þyngslalegt um að litast. Myrkvuð hús, örfá ljósaskilti á vararafmagni og rauð afturljós þarfasta þjónsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meiri möguleikar í rafmagnsleysi en áður

Hann bendir þó á að með lausninni Skannað og skundað sem viðskiptavinir geta nýtt gegnum síma sína með Snjallverslunar-smáforritinu til að skanna vörur beint úr hillu breytist möguleikarnir í rafmagnsleysi enn fremur þar sem hægt sé að skanna síma fólks á leiðinni út auk þess sem nota megi beltakassana innan tímaramma vararafstöðvanna.

„Þetta rafmagnsleysi núna hafði sem betur fer bara áhrif á Grandann [Krónuverslunina þar] og þar er búið að opna aftur svo við sluppum þokkalega núna,“ segir Ólafur Rúnar Þórhallsson hjá Krónunni að lokum.

Rökkri hjúpuð verslun H&M í miðbænum, en rafhlaupahjólið fer fetið …
Rökkri hjúpuð verslun H&M í miðbænum, en rafhlaupahjólið fer fetið enn þrátt fyrir rafmagnsleysi í byggingum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is