Rafmagnslaust og truflanir víða

Rafmagnslínur hafa slitnað og rafmagnsstaurar í Bárðardal hafa brotnað vegna …
Rafmagnslínur hafa slitnað og rafmagnsstaurar í Bárðardal hafa brotnað vegna ísingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagnstruflanir eru víða á norðanverðu landinu og þá er rafmagnslaust á nokkrum stöðum. Þetta má sjá á kortaskjá Rarik sem sýnir rafmagnstruflanir víða á landinu. 

Rarik dreifir rafmagni víðs vegar um landið en samkvæmt tilkynningu er rafmagnslaust í Bárðardal og gæti það varað fram eftir kvöldi. Í Bárðardal hafa rafmagnslínur slitnað og rafmagnsstaurar brotnað vegna ísingar en bilanaleit er langt komin þar og verið er að flytja varavélar á staðinn.

400 orðið fyrir truflunum

Þá er tekið fram að nokkrir bæir í Ljósavatnsskarði séu einnig án rafmagns. Að auki hafa truflanir verið á þó nokkrum stöðum en þar má nefna Lýtingsstaðahrepp, Reykjadal og Laxárdal. Einnig hafa verið truflanir á rafmagni frá Öræfum að Berufirði á Austurlandi.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu Rarik hafa 400 viðskiptavinir fyrirtækisins orðið fyrir truflunum vegna veðurs og eru 50 viðskiptavinir eins og er án rafmagns.

mbl.is