Bárðdælingar enn á varaafli

Aðstæðurnar sem mæta vinnuflokkum Rarik geta verið kuldalegar. Hér stendur …
Aðstæðurnar sem mæta vinnuflokkum Rarik geta verið kuldalegar. Hér stendur viðgerð yfir á aðveitustöð RARIK við Sauðárkrók í óveðri í desember 2019. Ljósmynd/Birgir Bragason

„Þetta er nú allt að koma sýnist mér, Jökuldalurinn er kominn inn og allir fastir ábúendur komnir með rafmagn en við erum enn þá að keyra varaafl í Bárðardal, þar eru fimm bæir á varaafli og verða í einhvern tíma á meðan við erum að átta okkur á hvernig best er að gera við þetta,“ segir Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Rarik, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá hér á vefnum í morgun voru 110 viðskiptavinir veitunnar þá án rafmagns í kjölfar aftakaveðurs í gær, íbúar í dreifbýli á Norður- og Austurlandi þar fjölmennastir.

Segir Helga dreifikerfið annars að komast í eðlilegt ástand, enn eigi þó eftir að sinna nokkrum endanlegum viðgerðum áður en eftirmálum þessa tiltekna veðurhams er að fullu lokið.

Allt í viðbragðsstöðu

Spurð út í gang mála þegar bilanir og truflanir koma upp segir Helga Rarik hafa vinnuflokka um allt veitusvæði fyrirtækisins. „Í þessu tilfelli voru það vinnuflokkarnir okkar á Norður- og Austurlandi sem sáu um þetta þar. Við vorum búin að undirbúa þetta vel og senda mannskap og færanlegar varavélar þangað þar sem við reiknuðum með að eitthvað gæti komið upp á,“ segir Helga.

Vinnuflokkar fyrir norðan og austan hafi verið klárir í slaginn og eins hefðu flokkar af Suður- og Vesturlandi getað komið til aðstoðar hefði þörf knúið. „Þetta er auðvitað stórt verkefni en þegar maður fær svona góðan fyrirvara og góðar upplýsingar frá Veðurstofunni og almannavarnadeild hjálpar það mikið. Þetta er náttúrulega ekki alltaf þannig, stundum kemur bara hvellur, en við erum alltaf með fólk á vakt allan sólarhringinn, bæði í vinnuflokkunum okkar og á svokölluðum svæðisvöktum sem fylgjast með kerfinu og taka við símtölum frá viðskiptavinum þegar þeir verða rafmagnslausir,“ segir Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Rarik.

mbl.is