Björguðu „bjartsýnum“ ferðamönnum uppi á heiði

Ísingin barin af raflínum sem komnar munu af léttasta skeiði. …
Ísingin barin af raflínum sem komnar munu af léttasta skeiði. Vopni hafði í ýmsu að snúast í illviðrinu án þess þó að tapa gleðinni. Ljósmynd/Facebook-síða Vopna

Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði hafði í mörg horn að líta í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og segir upp og ofan af útköllum á Facebook-síðu sinni. „Eitt útkall á Hellisheiði en þar voru mjög bjartsýnir ferðamenn á ferðinni,“ skrifa þeir Vopna-bræður á síðu sína.

Þá hafi raflína nokkur sem liggur um Vesturárdal upp að Hauksstöðum fengið að kenna á því en sú hafi verið slitin og margir staurar sligaðir. Þá voru ökutæki sveitarinnar sárt leikin í hildinni við storminn. „Vopni 2 laskaðist í þessu í dag og er úr leik í bili. Við vonumst til að Vopni 1 verði tilbúinn úr viðgerð á morgun, en það brotnuðu 6 rúður í honum þegar við vorum að bjarga fólki á Möðrudalsöræfum fyrr í mánuðinum. Stundum er þetta bras.“

Fleiri virðast hafa átt í brasi þótt ekki hafi allt tengst fannfergi, á Facebook-síðu Sauðaness á Langanesi birtist þessi mynd af einmana dráttarvél í hálfu kafi og fylgir kveðskapur í kaupbæti, kannski í dýrari kantinum er litið er til frumlegs ríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert