Fastir við Ánavatn og á Hellisheiði eystri

Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur haft í nógu að snúast.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur haft í nógu að snúast. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir á Austurlandi sinntu ferðamönnum við Ánavatn skammt sunnan við Sænautasel í gær og nótt sem höfðu fest ökutæki sitt. Einnig voru ferðamenn fastir í bíl sínum á Hellisheiði eystri og fengu þeir aðstoð frá björgunarsveitum.

Útkall barst frá Djúpavogi þar sem stefndi í skemmdir á íbúðarhúsnæði vegna foks en málið var afgreitt vel og hratt, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Björgunarsveitir aðstoðuðu einnig sjúkrabíl sem þurfti að fara með sjúkling á milli Egilsstaða og Neskaupstaðar.

„Aðgerðastjórn á Austurlandi lauk störfum nokkru eftir miðnætti í gær. Samkvæmt spám, sem hafa gengið vel eftir til þessa, mun lægja með morgninum. Vonandi erum við því að komast yfir þennan hjalla nokkurn veginn klakklaust,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert