Fólk betur undirbúið fyrir óveðrið

Um 30 til 40 útköll voru vegna óveðursins í gær.
Um 30 til 40 útköll voru vegna óveðursins í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 30 til 40 útköll voru í gær vegna óveðursins sem gekk yfir landið. „Verkefnin voru flest í gær, fram að kvöldi og nótt, þetta voru á milli 30 til 40 verkefni í heildina,“ segir Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri í aðgerðamálum hjá Landsbjörg, og bætir við að flest þeirra voru á Norður- Austurlandi.

„Það voru fastir bílar, fokverkefni og það var verið að aðstoða ferðamenn.“

Spurð segir hún verkefni björgunarsveita í fyrradag hafa verið ólík þeim verkefnum sem voru fyrir tveim vikum.

„Það voru allt öðruvísi verkefni þar sem það var ekki mikið um snjó þá, en nú var töluvert af snjó. Vindstyrkurinn var ekki jafn mikill núna, en það var samspil af vindi og úrkomu sem olli vandræðum núna.“

Að sögn hennar var fólk betur undirbúið fyrir óveðrið í fyrradag en fyrir tveim vikum.

„Það er mín tilfinning. Líka að fólk hafi hlustað á fyrirmæli lögreglu og almannavarna að halda sér heima. Svo er líka þannig að þegar stutt er frá síðasta óveðri að þá er það í fersku minni hjá okkur hvað getur gerst. Þá erum við líklegri til þess að undirbúa okkur betur.“

mbl.is