Lítils hlaups vænst

Gígjukvísl í hlaupinu í byrjun desember í fyrra.
Gígjukvísl í hlaupinu í byrjun desember í fyrra. Ljósmynd/Grétar Sigurðsson

„Hlaupið sjálft er ekki hafið, búist er við að það byrji á morgun og það kemur niður í Gígjukvísl,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um yfirvofandi jökulhlaup í Grímsvötnum.

Hún segir Veðurstofuna reikna með litlu hlaupi, óvíst sé að þess verði vart á vatnshæðarmælum. „Bæði er lón við jökulsporðinn sem dempar áhrifin og svo er dálítið flæmi við brúna, þar sem mælirinn okkar er, svo það er óvíst að hann sýni nokkuð,“ segir Salóme.

Í frétt á heimasíðu Veðurstofunnar í dag kemur fram að hlaupið verði varla nema fimmtungur af því sem síðasta hlaup var og sé reiknað með að það standi í nokkra daga. Tæpt ár er frá síðasta hlaupi, sem var í desember í fyrra, en Veðurstofan tekur fram í tilkynningu sinni að dæmi séu um eldgos í Grímsvötnum í kjölfar jökulhlaupa.

„Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss komi. Fluglitakóðinn fyrir Grímsvötn hefur þó verið færður yfir á gult vegna hlaupsins þar sem erfitt er að útiloka þann möguleika að eldgos hefjist í kjölfarið þó það teljist ólíklegt,“ segir í pistli Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert