Fjölskyldan læsir alltaf vegna hótana

Sólveig segir fjölskylduna alltaf læsa heimilinu eftir upplýsingar um hótanir.
Sólveig segir fjölskylduna alltaf læsa heimilinu eftir upplýsingar um hótanir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér brá og fannst þetta mjög óþægilegt,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is um sín fyrstu viðbrögð þegar henni var greint frá því að mennirnir tveir sem nú sæta gæsluvarðhaldi vegna meints undirbúnings á hryðjuverkum hefðu rætt sín á milli um að drepa hana.

Hún hafi þó verið búin að gera ráðstafanir vegna hótana sem hún var upplýst um.

„Ég og fjölskylda mín tókum upp það háttalag síðasta vetur að hafa alltaf læst. Það var vegna þess að ég var upplýst um það að hótun væri komin fram sem sneri að mér. Ofbeldishótun gagnvart mér og hótun um eignaspjöll á heimili mínu,“ segir Sólveig.

Umræðu- og fréttavefurinn Samstöðin greindi frá því í morgun að lögreglan hefði kallað bæði Gunnar Smára Egilsson, framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, og Sólveigu í vitnaleiðslur. Þar hefðu Sólveigu verið sýnd samskipti mannanna sem kölluðu hana meðal annars „kommalufsu“. Í kjölfarið komu ummæli um að drepa hana.

Áttu erfitt með að meðtaka alvaöru málsins

Sólveig segir fjölskylduna hafa reynt að meðtaka málið og alvarleika þess, en þau hafi átt erfitt með það. Þau hafi jafnvel staðið sig að því að flissa.

„Svo þegar ég fæ vitneskju um þetta, þá er það ónotalegt. Ég fór heim þennan dag og sagði fjölskyldunni minni frá þessu. Við sátum og borðuðum saman og reyndum að meðtaka þetta, við vorum að flissa, en horfðum hvert á annað og hugsuðum hvaða geðveiki þetta væri,“ segir Sólveig.

„Ekkert eðlilegt við þetta“

Þau hafi þó verið búin að vera með það bak við eyrað að vera varkárari vegna fyrri upplýsinga um hótanir.

„Við erum búin að vera inni í svona mómenti og höfum ekki farið út úr því. Maður fer í það að slá á létta strengi með þetta í örvæntingarfullri tilraun til að reyna að láta eins og hlutirnir séu eitthvað eðlilegir, en það kemur alltaf upp þessi hugsun að auðvitað sé ekkert eðlilegt við þetta.“

Sam­kvæmt Sam­stöðinni voru Gunn­ari Smára sýnd sam­skipti þar sem ann­ar mann­anna var á sama veit­ingastað og hann. Ræddu menn­irn­ir því næst um hvað myndi ger­ast ef hann dræpi Gunn­ar Smára.

mbl.is