Ríflega 100 viðskiptavinir Rariks enn án rafmagns

Mestar truflanir urðu í dreifbýli á Norður- og Austurlandi. Ljósmynd …
Mestar truflanir urðu í dreifbýli á Norður- og Austurlandi. Ljósmynd frá árinu 2019. Ljósmynd/Rarik/Rósant Guðmundsson

Enn eru um 110 viðskipavinir Rariks án rafmagns vegna þeirra truflana sem urðu á dreifikerfinu seint í gærkvöldi en samtals urðu um 500 viðskiptavinir fyrir truflunum vegna útleysinga í kerfinu vegna óveðursins.

Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Rarik, segir mestar truflanir í kerfinu hafa komið fram í dreifbýli á Norður- og Austurlandi, sem hafi þá fyrst og fremst haft áhrif á bændabýli og sumarbústaði.

Miklar truflanir í kjölfar línuslita

Í Bárðardal voru miklar truflanir í kjölfar línuslita og brotinna staura vegna ísingar og vinds en allir ábúendur voru komnir með rafmagn seint í gærkvöldi. Fimm bæir verða á varaafli þar til viðgerðum á línunni er lokið en farið verður í þær framkvæmdir á næstu dögum.

Á Norðurlandi var Lýtingsstaðarhreppur rafmagnslaus tvisvar og kom í ljós slitinn fasi sem gert var við. 

Þá voru einnig skemmri truflanir í Reykjadal og Laxárdal.  Í Ljósavatnsskarði voru nokkrir bæir rafmagnslausir.  Í Þistilfirði og Vopnafirði eru bilanir en allir ábúendur fengu rafmagn í gær eða í nótt.  Farið verður í frekari bilanaleit og viðgerðir á báðum stöðum í dag. 

Færri truflanir á Austurlandi en von var á

Helga segir nóttina hafa farið svipað og starfsmenn Rariks áttu von á, jafnvel betur: „Það urðu færri truflanir á Austurlandi en við áttum von á. Mannskapurinn var á fullu allan gærdaginn og við erum enn að. Það er enn fólk rafmagnslaust á Austurlandi út af þessu.“

mbl.is