Varðhald stytt og ræddu morð á Gunnari og Sólveigu

Sólveig Anna Jónsdóttir og Gunnar Smári Egilsson hafa bæði verið …
Sólveig Anna Jónsdóttir og Gunnar Smári Egilsson hafa bæði verið kölluð í vitnaleiðslu vegna samskipta manna sem tengjast meintu hryðjuverkamáli. Samsett mynd

Úrskurður héraðsdóms um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir öðrum þeirra tveggja sem hafa verið í varðhaldi vegna meints undirbúnings á hryðjuverkum hefur verið styttur niður í eina viku. Þetta staðfestir Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi mannsins, í samtali við mbl.is. Hinn maðurinn hafði einnig kært úrskurð héraðsdóms, en á fyrsta tímanum í dag var enn beðið niðurstöðu Landsréttar varðandi mál hans.

Ómar segir að í úrskurðinum stytti Landsréttur fyrri úrskurð, en taki þó fram að skjólstæðingur sinn geti áfram verið í varðhaldi eða einangrun fram til föstudagsins 13. október. Ómar bendir reyndar á að föstudagurinn sé 14. október, þannig að enn eigi eftir að koma í ljós hvort það verði fimmtudagurinn eða föstudagurinn sem miðað sé við, en fyrri úrskurður átti að renna út á fimmtudaginn í næstu viku.

Ýtrasta krafa Ómars og skjólstæðings hans var að gæsluvarðhaldið yrði fellt úr gildi, en til vara að hafna einangrun eða stytta varðhaldið. Ómar ítrekar fyrri gagnrýni sína á lengd einangrunar og segir hana komna yfir öll mörk. Hann staðfestir að maðurinn hafi á síðustu vikum farið 3-4 sinnum í yfirheyrslu.

Í dag greindi umræðu- og fréttavefurinn Samstöðin frá því að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og einn af stjórnarmönnum Alþýðufélagsins sem sér um útgáfu Samstöðvarinnar, hefðu verið kölluð inn til vitnaleiðslu í málinu. Hafði Sólveigu verið sýnd samskipti tveggja manna þar sem hún var kölluð „kommalufsa“ og því fylgt eftir með ummælum um að drepa ætti hana.

Samkvæmt Samstöðinni voru Gunnari Smára sýnd samskipti þar sem annar mannanna var á sama veitingastað og Gunnar Smári. Ræddu mennirnir því næst um hvað myndi gerast ef hann myndi drepa Gunnar Smára.

Spurður út í þessi samskipti sagði Ómar í samtali við mbl.is að hann gæti ekki tjáð sig um þetta atriði.

mbl.is