„Við stjórnum ekki veðrinu“

Hættu­stigi var lýst yfir á Norður­landi eystra, Aust­ur­landi og Suður­landi …
Hættu­stigi var lýst yfir á Norður­landi eystra, Aust­ur­landi og Suður­landi vegna óveðursins í gær og nótt. mbl.is/Arnþór

Verkefni björgunarsveita landsins voru færri en búist var við í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og nótt. Nokkuð var um umferðaróhöpp þar sem bílar fóru út af vegum en engar tilkynningar hafa borist almannavörnum um slys á fólki. Þetta segir Jón Svanberg Hjartarson, fag­stjóri aðgerðamála hjá al­manna­vörn­um.

„Heilt yfir gekk þetta vel. Allir voru eins vel undirbúnir og hægt var. Við stjórnum ekki veðrinu en getum gert hvað við getum til að draga úr neikvæðum afleiðingum á samfélagið,“ segir Jón Svanberg í samtali við mbl.is.

Lokanir víða vegna veðurs

Hættu­stigi var lýst yfir á Norður­landi eystra, Aust­ur­landi og Suður­landi vegna óveðursins í gær og nótt en ekki er vitað til þess að telj­andi tjón hafi orðið á eign­um. Víða var veg­um lokað sem varð til þess að er­lend­ir ferðamenn komust ekki leiðar sinn­ar og urðu að sækja hjálp í fjölda­hjálp­ar­stöðvar. 

Að sögn Jóns Svanbergs sýndu flestir skilning þegar þeir komu að lokunum á vegum. Þá hafi almennt gengið vel að ná til ferðamanna til að vara þá við. 

„Okkur mun sennilega aldrei takast að girða svo vel fyrir með viðvörunum eða öðrum að það lendi enginn í vandræðum. En þetta er alltaf áskorun og við mættum þessu í þetta skiptið með lokunum - ansi tímanlega sums staðar.“

Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum.
Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum. Ljósmynd/Aðsend

Fólk með misjafnar skoðanir

Jón Svanberg segir viðbúið að fólk hafi misjafnar skoðanir þegar íþyngjandi ákvarðanir, á borð við að loka vegum eða lýsa yfir hættustigi, eru teknar. Engin ákvörðun sé yfir gagnrýni hafin og að fólk eigi að koma efasemdum sínum á framfæri.

„Þegar ákvarðanir um þetta eru teknar þá eru þær teknar að gefnum þeim forsendum sem liggja fyrir þá en ekki eftir á. Eins og gefur að skilja er spá og síðan raungerist eitthvað,“ segir Jón Svanberg og bætir við að auðvelt sé að vera vitur eftir á.

Í þessu tilfelli hafi veðrið þó verið nokkkurn veginn í samræmi við það sem búið var að spá. 

Fólk var almennt meðvitað um hvað í stefndi og hlustaði á tilmæli sem gefin voru út í aðdraganda illviðrisins. Skipti það sköpum þegar kom að álagi á björgunarsveitir.

„Er kannski ástæðan fyrir því að verkefnin urðu ekki fleiri en þetta einmitt sú að fólk var upplýst og það var gripið til forvirkra aðgerða? Það er bara eftir því hvernig þú horfir á þetta.“

Hefði orðið meira tjón

Þá vekur fagstjórinn einnig athygli á því að búið sé að gera stórt átak í uppbyggingu innviða síðan árið 2019. Töluvert af raflínum séu komnar í jörðu sem annars hefðu verið strengdar milli staura. 

„Það hefði orðið meira tjón ef það hefði ekki verið gert,“ segir Jón Svanberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert