Jón segir stutt í útlendingafrumvarp

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru seglar í okkar lagaumhverfi sem gera það að verkum að vandinn er eins mikill og raun ber vitni hér, hlutfallslega sá langmesti ef horft er til nágrannaþjóða okkar í Evrópu,“ sagði Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, í svari við óundirbúinni fyrirspurn um húsnæðisskort og vöntun á aðstöðu fyrir hælisleitendur hér á landi.

Enn fremur kom fram í máli ráðherrans að ekki væri ágreiningur innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um efni þeirra frumvarpa til breytinga á útlendingalögum sem lögð hafa verið fram ítrekað, undanfarin þing.

Jón boðaði að hann myndi gera ríkisstjórninni grein fyrir tillögum um hvernig ganga megi enn lengra við að „sníða af vankanta á útlendingalögum“. Í gær mælti hann fyrir frumvarpi til laga um landamæri en í samtali við Morgunblaðið segir Jón að líða fari að því að frumvarp hans um breytingar á útlendingalögum verði lagt fram. „Það er verið að vinna að lokafrágangi á því. Við reiknum með að leggja fram þingmálið á þessu tímabili,“ segir hann en frumvarpið var fyrst boðað á þingmálaskrá í september.

Í umræðum um frumvarp til laga um landamæri sagði Jón Gunnarsson að skráningarkerfið, sem lagt er til að stuðst verði við í frumvarpinu, fæli í sér strangara eftirlit með för fólks. „Það eru verulegar áhyggjur af því innan Schengen-svæðisins að það sé verið að misnota flóttamannakerfin – og það eru miklu meira en áhyggjur – það er fullkomin vitneskja um það. Lögregluyfirvöld hafa það sérstaklega til eftirlits og rannsóknar,“ sagði hann.

„Í dag er fólk að koma í hópum frá Venesúela, það koma hlutfallslega margir til Íslands; þeir sækja allir um vernd,“ sagði Jón einnig. Hann benti á að vernd þeirra á Íslandi veitti Venesúelamönnum meiri réttindi en hjá nokkurri annarri Evrópuþjóð.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert