Fangelsi landsins að fyllast

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir í samtali við mbl.is að það sé rétt að metfjöldi fanga sitji nú í fangelsi.

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að fangelsi landsins séu að fyllast af fólki sem er sett í gæsluvarðhald. Fjöldinn er meira en tvöfaldur á við það sem gerist í venjulegu árferði. Einnig kemur fram að aldrei hafi fleiri konur verið í fangelsum heldur en nú. 

Mikið um erlenda ríkisborgara 

„Við þurfum að nýta fangelsin betur og meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það eru á þessu ýmsar skýringar. Það hafa komið upp nokkuð mörg stór mál undanfarið og þar að auki eru ansi mörg mál, eins og hefur komið fram í fréttum, sem varða innflutning á fíkniefnum.

Þetta eru erlendir einstaklingar sem eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það munar töluvert um þetta. Þannig að staðan er sú í dag að við erum með rúmlega tvisvar sinnum fleiri gæsluvarðhaldsfanga heldur en nokkru sinni áður, eða 47.

Þetta er gríðarlegur munur og þetta eru ansi margir einstaklingar sem eru að koma með tiltölulega lítið magn af fíkniefnum innvortis til landsins sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og í framhaldinu til afplánunar,“ segir Páll. 

Páll Winkel, fangelsismálastjóri.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hann segir að vonandi sé þetta toppur núna og ekki ástand sem sé komið til að vera. „Það er alveg ljóst að kerfið getur ekki tekið endalaust við.“

Stýra ekki streymi gæsluvarðhaldsfanga

Hann segir að þessi mikli fjöldi komi einnig niður á boðun til afplánunar. „Við getum ekki stýrt streymi gæsluvarðhaldsfanga í fangelsinu, því þeir koma bara þegar lögregla mætir með þá. En þetta getur þýtt að við þurfum að fresta afplánun annarra sem hafa verið að bíða eftir afplánun.

Fjölgun hjá erlendum konum

Í frétt í dag kom einnig fram að metfjöldi kvenna er núna í fangelsum landsins, en þær voru 18 í síðustu viku. „Það sem skýrir helst fjölgun kvenna í þessu tilviki eru erlendar konur sem eru að koma með fíkniefni innvortis til landsins og það hefur þótt ástæða til að úrskurða þær í gæsluvarðhald vegna þessa og þær koma þá til okkar.

Litla-Hraun á Eyrarbakka.
Litla-Hraun á Eyrarbakka. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Farbann fram að dómi?

Þegar Páll er spurður um það hvort það þurfi jafnvel að endurskoða fangelsun fyrir smærri brot ef öll fangelsi séu full segir hann erfitt fyrir hann að tjá sig um það.

„Hugsanlega er þó hægt að sjá fyrir sér að einhver hluti þessa hóps yrði settur í farbann í stað gæsluvarðhalds fram til þess tíma að dómur er kveðinn upp. En ég segi það samt með öllum fyrirvörum, því það er utan míns ábyrgðar- eða þekkingarsviðs, en það er svona í fljótu bragði það eina sem ég sé að gæti leyst þetta tímabundið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert