Segir Eflingu ekki fá neitt út úr veru sinni í ASÍ

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður verkalýðsfélagsins Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður verkalýðsfélagsins Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú niðurstaða þings ASÍ, að því skuli frestað til næsta árs, hefur ekki breytt afstöðu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um það hvort hún telji hagsmunum félagsins betur borgið innan Alþýðusambandsins eða ekki. Þá segist hún ekki eiga von á því að Efling muni taka þátt í komandi kjaraviðræðum á vettvangi ASÍ, en fulltrúar stærstu félaga sambandsins hafa tekið þátt í samninganefnd ASÍ þar sem fjallað er um sameiginleg mál launþega í hreyfingunni.

Sólveig Anna segir, í samtali við mbl.is, rétt fyrir klukkan eitt, að hún myndi fljótlega í dag funda með þingfulltrúum Eflingar og fara yfir atburðarásina. Síðar verði svo fundað í stjórn og trúnaðarráði. Sólveig Anna segir að þar verði líklegast eitt af stóru umræðuefnunum staða Eflingar innan ASÍ og hvað félagið hyggist gera í framhaldinu.

Ætlar að ræða úrsögn „af fyllstu alvöru

Ítrekar hún efasemdir sínar um hvort Efling eigi heima innan raða ASÍ og vísar til þess að hún hafi í gegnum tíðina oft verið spurð af félögum sínum hvað Efling fái fyrir það að starfa undir merkjum ASÍ. „Það er orðið erfiðara og erfiðara að svara því og nú er svo komið að ég get ekki svarað fólki með öðru en að Efling fái raunverulega ekkert út úr því að vera þarna inni. Þessi vettvangur sé augljóslega ekki notaður til að styrkja böndin við forystu verka- og láglaunafólk, heldur til að jaðarsetja og finna leiðir til að niðurlægja okkur,“ segir hún og bætir við: „Við munum ræða þetta af fyllstu alvöru.“

Spurð hvort hún telji niðurstöðu þingsins vera þá heppilegustu í kjölfar upplausnarinnar sem skapaðist í gær segist Sólveig Anna ekki hafa neina skoðun á því. Þannig hafi hún búist við því að þingið yrði klárað og gengið yrði til kosninga. Spurð hvort það komi til greina að hún eða aðrir fulltrúar frá Eflingu mæti á það þing sem boðað verður til á næsta ári segist hún ekki geta svarað því á þessum tímapunkti.

4-5 frá Eflingu á þinginu í dag

Efling var með 54 þingfulltrúa á þessu þingi. Greint hafði verið frá því að einhverjir hefðu mætt aftur í dag. Sólveig Anna segir að þar hafi verið um 4-5 fulltrúa að ræða. Ólöf Helga Adolfsdóttir, fyrrverandi varaformaður Eflingar og frambjóðandi til forseta ASÍ, og Agnieszka Ewa Ziólkowska, fyrrverandi formaður Eflingar, hafi verið þar á meðal.

Segir Sólveig Anna það hafa verið viðbúið að þessi hópur mætti og að hún sé í sjálfu sér ekki svekkt yfir mætingu þeirra í dag. „Það eru ekki margir á þessum tímapunkti sem eru hér að taka þátt í starfi félagsins og taka þessa baráttu sem við stöndum í alvarlega og hafa sjálfsvirðingu sem þroskað, fullorðið fólk. Það eru ekki margir þeirra sem hafa áhuga á því að fara aftur inn á þennan vettvang [ASÍ],“ segir Sólveig Anna.

„Ekki kallað neinn geranda né ofbeldisfólk, nema fólk sem hefur hótað mér ofbeldi“

Í gær vísaði Sólveig Anna til þess að hafa setið undir því að vera kölluð gerandi og ofbeldismanneskja. Spurð hvort að báðar fylkingar í þessu máli þurfi ekki að horfa í eigin barm varðandi framkomu og orðasendingar segist hún ekki hafa notað slík orð um aðra en þá sem sannarlega hafi beitt ofbeldi. „Ég hef ekki kallað neinn geranda né ofbeldisfólk, nema fólk sem hefur hótað mér ofbeldi. Ég nota þessi orð ekki af léttúð og finnst að við eigum að gæta þess að gjaldfella þau ekki, en þegar einhver hótar ofbeldi þá hefur það gerst.“

Segist hún hafa í gagnrýni sinni hafa verið málefnaleg og vísar þar í langa greinaröð sína sem birt var á Kjarnanum. Þar hafi hún meðal annars reifað um hvað þessar málefnadeilur snerust. „Hvað snýr að Ólöfu Helgu og hennar andspyrnu- og skemmdarverkarstarfsemi inni í stjórn félagsins þá hef ég reynt eftir bestu getu að eiga samskipti við hana á þeim vettvangi,“ segir hún og vísar til stjórnarfunda Eflingar. „Hún [Ólöf Helga] hefur aftur á móti sýnt það og sannað, aftur og aftur, að hún hefur ekki haft áhuga á því,“ segir Sólveig Anna.

Átökin ekki skaðað hagsmuni Eflingarfólks

Spurð hvort hún telji að átökin sem nú hafi átt sér stað muni skaða hagsmuni venjulegs launafólks segir Sólveig Anna að hún telji þau allavega ekki hafa skaðað hagsmuni Eflingarfólks. Vísar hún í fyrri kjaraviðræður sem hún hafi átt aðkomu að, bæði lífskjarasamkomulagið og svo síðustu viðræður. „Efling fór í mjög erfiðar, langar og hatrammar kjaradeilur við Reykjavíkurborg og Samtök sveitarfélaga. Í báðum tilfellum landaði Efling mjög góðum samningi,“ segir Sólveig Anna. „Ég held að verka- og láglaunafólkið í Eflingu viti og skilji að það þarf ekki að hafa áhyggjur. Við förum bara fram með sama hætti og við höfum gert, með vandvirkni og baráttugleði.“ Segist hún vera fullviss um að þar muni nást árangur.

Segir forvera sína ekki hafa viljað vinna sigra fyrir félagsfólk

Spurð hvort hún búist við harðari baráttu en síðast segir Sólveig Anna: „Við þekkjum ekkert annað en harða baráttu.“ Segir hún jafnframt að félagsmenn hennar séu óhræddir við að sigra. „Það hefur verið helsti akkilesarhæll verkalýðsbaráttunnar og sérstaklega verkalýðsbaráttu verka- og láglaunafólks. Þau sem hafa verið í forsvari fyrir Eflingu vildu ekki vinna sigra fyrir hönd félagsfólks. Vildu einmitt leyfa þeim sem fóru með völd í þessu landi að viðhalda einhverjum fölskum stöðugleika á kostnað þeirra sem vinna vinnuna. Við höfum ekki þá sýn,“ segir Sólveig Anna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert