Undir þremenningunum komið að sátt náist innan ASÍ

Ólöf Helga Adolfsdóttir kveðst ekki svekkt út í niðurstöðu dagsins …
Ólöf Helga Adolfsdóttir kveðst ekki svekkt út í niðurstöðu dagsins og mun hún halda ótrauð áfram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Helga Adolfsdóttir kveðst ekki geta verið svekkt yfir því að þingi ASÍ hafi verið frestað enda var sú tillaga samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Hún hyggst halda ótrauð áfram og standa við framboð sitt til forseta ASÍ.

Þá telur hún ekki óraunhæft að samstaða náist innan ASÍ fyrir næsta þing og vonar að þessi uppákoma muni ekki hafa neikvæðar áhrif á komandi kjaraviðræður.

„Það er þeirra að vera tilbúin að vinna með ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR dró framboð sitt til forseta ASÍ til baka í gær og var því Ólöf Helga eini frambjóðandinn í embættið þegar þing ASÍ hófst í morgun klukkan 10.

Þá hættu Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness einnig við sín framboð í miðstjórn ASÍ.

Þessi uppákoma setti þing ASÍ, sem átti að ljúka í dag, í uppnám og var fallist á þá tillögu í dag að fresta því fram á næsta ár. 

„Þó ég hafi verið á móti þá get ég ekki verið svekkt yfir því að 90 prósent félögum í aðildarfélögum ASÍ hafi tekið þessa ákvörðun. Ég bara fylgi því,“ segir Ólöf við blaðamann þegar ljóst varð að þinginu yrði frestað fyrr í dag.

Spurð hvort hún telji það raunhæfan möguleika að það náist sátt innan ASÍ áður en næsta þing fer fram á næsta ári, kveðst Ólöf ekki trúa öðru. 

„Það er náttúrulega að mestu leyti undir Sólveigu, Vilhjálmi og Ragnari komið. Það eru þau sem taka þessa ákvörðun að draga framboð sín til baka. Það er þeirra að vera tilbúin að vinna með ASÍ.“

„Rosalega leiðinlegt“

Hvað finnst þér um þessa ákvörðun þeirra?

„Mér finnst þetta leiðinlegt en að öðru leyti þá finnst mér ég ekki geta haft mikla skoðun á henni. Þetta er ákvörðun sem þau tóku vonandi að vel ígrunduðu máli. Telji þau að þeim hafi verið vegið á einhvern persónulegan hátt þá er það rosalega leiðinlegt.“

Spurð út í þær afleiðingar sem úrsögn VR, Eflingar og VFLA úr ASÍ gæti haft, segir Ólöf slíkt ferli ekki vera auðvelt.

„Efling boðar ekki bara til stjórnarfunds og segir við ætlum að hætta í ASÍ. Allir félagsmenn Eflingar hafa eitthvað um það að segja. Maður þarf tvo þriðju hluta félagsmanna til að samþykkja þetta. Þannig að ég sé það ekki alveg gerast núna. En ef það gerist, að þessi þrjú félög segja sig úr ASÍ, þá náttúrulega mun það breyta mynd ASÍ.

Í að einhverju leyti. En ég tel að samstaða innan ASÍ geti alveg haldist þó þetta verði aðeins minni hreyfing.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert