Eiginkonan hafi stungið manninn með hnífi í mars

Maðurinn lést aðfaranótt 3. október.
Maðurinn lést aðfaranótt 3. október. mbl.is/Sigurður Bogi

Eiginkona mannsins sem var stunginn til bana á Ólafsfirði í síðustu viku er grunuð um að hafa stungið hann með eggvopni í mars á þessu ári. Þá hefur lögreglan á Norðurlandi eystra einnig nokkur mál til rannsóknar til viðbótar þar sem talið er að hjónin hafi átt í átökum sín á milli.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar frá 5. október þar sem úrskurður héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun yfir konunni var staðfestur. Hún var þó látin laus þann 7. október.

Áður hefur mbl.is greint frá því að allir sakborningarnir í málinu hafi áður fengið dóm.

Vildi ekki fara heim

Í dómi héraðsdóms, sem birtist í úrskurði Landsréttar, er atburðarás kvöldsins sem andlátið átti sér stað rakin.

Þar kemur fram að gögn bendi til þess að þetta kvöld hafi sá látni sent einhvern til þess að sækja eiginkonu sína á heimili annars einstaklings þar sem hún á að hafa verið að drekka og hugsanlega neyta annarra vímugjafa.

Eiginkonan virðist þó ekki hafa viljað fara heim og þegar að sá látni var upplýstur um það á hann að hafa ákveðið að fara sjálfur á staðinn. Þá hafi sú atburðarás hafist sem lauk með því að maðurinn hlaut stungusár sem dró hann til bana. Þá hlaut önnur manneskja á vettvangi alvarlega áverka sem virðast hafa orðið eftir hníf. 

Í dóminum kemur fram að ekki sé vitað hver hafi veitt stungusárið sem leiddi til bana mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert