„Til hamingju með þessa uppfærslu!“

Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar.
Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar. Ljósmynd/Aðsend

Inga Auðbjörg Straumland formaður Siðmenntar segir allt tilstandið um boðorðin níu undanfarna viku vegna breytinga á fermingarbæklingi í Garðasókn vera bráðfyndna, en einnig bregða ljósi á einbeitta tregðu til breytinga. Hún er stödd á Athafnastjóraþingi á Hellu með stórum hóp úr Siðmennt þar sem í dag fer fram fræðsla og umræður og síðan verði 15 manna hópur útskrifaður sem athafnastjórar í dag og geti þá sinnt embættisverkum Siðmenntar.

Handbókin góð fyrir tvö þúsund árum

„Af því að ég er ekki trúuð, þá tengi ég ekki við eitthvað batterí sem má ekki breyta. Þjóðkirkjan, eða kristin trú er svolítið þannig að það er bara eitt ævafornt rit sem hefur legið nokkuð óhreyft síðustu ár og aldir og innihaldinu má ekkert breyta. Það getur vel verið að þessi handbók hafi átt vel við fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir ríflega tvö þúsund árum eða svo, en hún gerir það ekki í nútímasamfélagi,“ segir Inga Auðbjörg.

Í dag útskrifast eftirfarandi einstaklingar sem athafnastjórar hjá Siðmennt: Sigurður …
Í dag útskrifast eftirfarandi einstaklingar sem athafnastjórar hjá Siðmennt: Sigurður Starr Guðjónsson, Una Sighvatsdóttir, Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, Ragnhildur Sigurðardóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Matthías Tryggvi Haraldsson, Silja Jóhannesar Ástudóttir, Íris Stefanía Skúladóttir, Ragnar Ísleifur Bragason, Zindri Freyr Ragnarsson Caine, Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, Margrét Erla Maack, Brynhildur Björnsdóttir, Kolbeinn Tumi Daðason og Bragi Páll Sigurðarson. Ljósmynd/Aðsend/Haraldur Jónasson

„Ég prísa mig svolítið sæla að tilheyra lífsskoðunarfélagi sem er alltaf að endurskoða sig. Við í Siðmennt erum með alþjóðlega grundvallaryfirlýsingu sem við skoðum á svona tuttugu ára fresti og stillum af miðað við nýja þekkingu og hvernig samfélagið hefur þróast og breyst. Ég er bara mjög þakklát fyrir að tilheyra þessum hópi. Það hentar mér miklu betur að máta mig við gildagrunn sem er uppfærður reglulega.“

Úrelt orðalag fjarlægt

Inga Auðbjörg segir að rithöfundurinn Halldór Armand hafi vakið athygli á því að það vantaði tíunda boðorðið í upptalningu Garðasóknar fyrir fermingarbörn á Twitter.

„Þegar boðorðin eru skoðuð þá sést að það er í rauninni búið að sleppa úr öðru boðorðinu um líkneski en líka er búið að taka aftan af því tíunda, sem varðar ágirnd gagnvart náunganum og fjarlægja þaðan úrelt orðalag um ambáttir og þræla, sem ég myndi alla vega ekki vilja standa fyrir að börn væru að læra í dag. Það yrði allavega ekki gert í borgaralegri fermingu, það er alveg á hreinu.“

Hún segist líka spyrja sig hvers virði það sé fyrir fermingarbörnin að læra einhverja frasa utanbókar. „Er ekki meira virði að þau tileinki sér góð gildi. Í borgaralegu fermingarfræðslunni hjá okkur erum við að kenna börnum góð gildi og að þau tileinki sér þessi sammannlegu gildi sem að felast í húmanismanum og svo sem fleiri hugmyndakerfum,“ segir hún og finnst þessi nálgun kirkjunnar vera mjög úrelta.

Þing Athafnastjóra Siðmenntar á Hellu í dag. Þingið er til …
Þing Athafnastjóra Siðmenntar á Hellu í dag. Þingið er til að dýpka tengslin, fræðast og læra meira og er lokahnykkurinn á þjálfun nýliða sem útskrifast sem athafnastjórar í dag. Ljósmynd/Aðsend/Haraldur Jónasson

Alltaf sammála um góð gildi

„En ef að ég væri kirkjunnar manneskja myndi ég líka vilja uppfæra orðalag kirkjunnar talsvert, því það er karllægt og „normalíserar“ þrældóm og mansal í rauninni og ýmislegt fleira. Það er líka bara ekki lögð áhersla á það sem mér finnst skipta máli. En auðvitað eru sum boðorðin bara góð og gild eins og Þú skalt ekki drepa, eða bera ljúgvitni og svo framvegis. Þar erum við í Siðmennt alveg sammála.“

Má hugsa um allt sem mér sýnist

Inga segir að sér hugnist engan veginn að guð geti bannað fólki að hugsa eitthvað og það falli ekki að sinni lífssýn á nokkurn hátt.  

„Fólk á að mega að hugsa um hvað sem er undir sólinni. Það eru gjörðir þess og hegðun sem þurfa að lúta einhverjum takmörkunum. En það hlýtur að vera algert hugsunafrelsi í nútíma samfélagi.“

Inga segir að hún geti alveg ímyndað sér að kirkjan hafi séð sér leik áborði að grynnka aðeins á umdeildum atriðum í boðorðunum með því að skera niður og skella borðorðunum níu á bæklinginn fyrir fermingarbörnin.

„Ég segi þá bara við þau: Til hamingju með þessa uppfærslu!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert