Býst við að taka við af Jóni á næstu mánuðum

Guðrún Hafsteinsdóttir er tilbúin til að takast á við dómsmálaráðuneytið.
Guðrún Hafsteinsdóttir er tilbúin til að takast á við dómsmálaráðuneytið. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það var talað um að ráðherraskipti yrðu í síðasta lagi eftir 18 mánuði, þannig að ég geri ráð fyrir því að taka við  einhvern tíma á næstu mánuðum eða á fyrripart næsta árs. Jón Gunnarsson er búinn að gegna embættinu í tæpa þrettán mánuði, svo það fer að koma að þessu,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og næsti dómsmálaráðherra flokksins.

Hún vildi ekki lesa mikið í orð Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra á Hringbraut í vikunni þar sem hann var spurður  hvort ekki væri truflandi að hafa ráðherraskipti hangandi yfir sér, fannst ýmsum sem svar hans mætti túlka á þann veg að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, réði þessu óháð því samkomulagi sem gefið var út við ráðherraskipan í upphafi kjörtímabilsins. 

Það hafa verið ör skipti í dómsmálaráðuneytinu og á næstu …
Það hafa verið ör skipti í dómsmálaráðuneytinu og á næstu mánuðum er gert ráð fyrir að Guðrún Hafsteinsdóttir taki við af Jóni Gunnarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir að það séu alltaf einhverjar áherslubreytingar með nýju fólki en segir samt að stóru línurnar séu þær sömu hjá þeim flokkssystkinunum. Þar nefnir hún sérstaklega málefni hælisleitenda sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, en Jón hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á lögum í málaflokknum á næstu vikum.

Nauðsyn að endurskoða málin

„Það er alveg ljóst að við höfum búið við kerfi útlendingamála núna í nokkur ár sem hefur ríkt ágætis sátt um, en þrátt fyrir það hefur ekki tekist að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum. Núna virðist vera að það fyrirkomulag sé að nálgast þolmörk sín og þá er ekki bara ástæða til þess að skoða þessi mál betur, heldur líka hrein nauðsyn, að fara yfir þessi lög og að samræma þau þá meira því sem gerist í löndunum í kringum okkur,“ segir Guðrún og nefnir sérstaklega Noreg í því sambandi.

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

Reynir á þolmörk kerfisins

„En ég vil leggja áherslu á það að við verðum að standa vörð um þetta kerfi því það snertir viðkvæma hópa, en á sama tíma verðum við að hafa enn skýrari reglur um það hvernig fólk kemur til landsins. Núna höfum við fengið óvenju marga flóttamenn og hælisleitendur til landsins á þessu ári og óneitanlega hefur það reynt á þolmörk grunnkerfa samfélagsins sem við allir íbúar landsins treystum á,“ segir Guðrún og er þá að tala um heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið, menntakerfið og húsnæðiskerfið.

Uppsafnaður vandi á húsnæðismarkaði

„Við vitum að við höfum búið við vanda á húsnæðismarkaði í nokkuð mörg ár og þegar koma nokkrar þúsundir til landsins sem vantar húsnæði þá liggur það í hlutarins eðli að þetta er íþyngjandi. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að gæta þess að kerfin geti staðið undir þessu aukna álagi og brotni ekki. Það er það fyrst og síðast sem vakir fyrir okkur um að gera þessar breytingar þannig að við getum stýrt þessu betur og haft betri yfirsýn og að við tökum vel á móti þeim sem hingað koma og þurfa á vernd að halda.“

Flóttamenn frá Úkraínu.
Flóttamenn frá Úkraínu. mbl.is/Árni Sæberg

Mannúð og skynsemi

Guðrún segir að vissulega þurfi mannúðin að vera í fyrirrúmi í þessum viðkvæma málaflokki, en hún þurfi samt að haldast í hendur við raunveruleikann og getuna til að geta tekið vel á móti hælisleitendum. Það sé engum greiði gerður ef ekki sé tekið mið af raunveruleikanum og getu okkar til að sinna málaflokknum með sóma.

„Við þurfum líka á vinnufæru fólki að halda hérna á Íslandi, hvort sem það eru Íslendingar eða hælisleitendur. Það er því alveg gríðlega mikilvægt að við tökum þetta verkefni og að okkur farnist vel í því. Við þurfum að móta okkur stefnu í innflytjendamálum. Það er krefjandi spurning hvernig við ætlum að manna störf hér nú og framtíðinni. Við þurfum á fólki að halda.“

Berum öll ábyrgð á þessu verkefni

„Sumt fólk er að koma hér með þunga reynslu á bakinu og mikil áföll og við þurfum auðvitað að taka utan um þá hópa og aðstoða þá til virkni í samfélaginu. Það er verkefni sem við berum öll ábyrgð á.”

Síðan segir Guðrún að lokum að það sé mikilvægt að dreifa álaginu sem víðast.

„Það gengur ekki að við séum að setja síðan svona mikinn þunga á íbúa á litlu svæði eins og í Reykjanesbæ heldur verðum við að dreifa þessu álagi á fleiri sveitarfélög.“

mbl.is