Heiða sækist ekki áfram eftir varaformennsku

Heiða Björg þakkar fyrir stuðninguna og hvatningu til að halda …
Heiða Björg þakkar fyrir stuðninguna og hvatningu til að halda áfram sem varaformaður. mbl.is

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ætlar ekki að bjóða sig aftur fram til varaformanns Samfylkingarinnar á næsta landsfundi flokksins. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni. Hún hafði áður gefið það út að hún sæktist eftir áframhaldandi setu sem varaformaður.

Heiða Björg segir að nýju hlutverki hennar hjá Samandi íslenskra sveitarfélaga fylgi mikil ábyrgð og hún vilji leggja sig alla fram um að standa undir því mikla trausti sem sveitarstjórnarfólk um allt land hafi sýnt henni með kjörinu.

Ásamt því að vera einnig í  forystusveit í borgarstjórn Reykjavíkur sé hún líka fjölskyldukona og þessum hlutverkum ætli hún að forgangsraða á næstu misserum.

„Ég er þakklát fyrir stuðninginn og hvatningu til að halda áfram sem varaformaður. Þetta hefur verið uppbyggingarstarf, mikil vinna, samtöl, stefnumótun, gleði og átök. Ég er því fyrst og fremst þakklát öllu því magnaða fólki sem hefur lagt Samfylkingunni lið á liðnum árum og komið okkur á þann stað sem við erum í dag,“ segir Heiða Björg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert