Boðorðin eru sígild og alltaf í gildi

Þórhallur Heimisson rithöfundur og prestur
Þórhallur Heimisson rithöfundur og prestur mbl.is/Árni Sæberg

„Oft er það því miður þannig þegar fjallað er um Biblíuna, að menn nálgast hana út frá fyrirframgefnum fordómum og setja þannig fram fullyrðingar um efni hennar, án þess jafnvel að hafa lesið hana,“ segir Þórhallur Heimisson prestur og rithöfundur og vísar þar í umræðu sem spunnist hefur um bækling í Garðasókn til fermingarbarna þar sem boðorðunum hafði fækkað um eitt.

„Þannig sýnist mér dulítið þessi umræða um boðorðin vera núna. Garðakirkja vill fækka þeim í níu af því að þau séu svo þung fyrir fermingarbörnin og fulltrúi Siðmenntar telur þau gamaldags og úrelt. Ef ég hef skilið rétt.“

Þórhallur er viskubrunnur þegar kemur að boðorðunum enda hefur hann nýverið skrifað bókina Allt sem þú vilt vita um Biblíuna þar sem sérstakur kafli er tileinkaður boðorðunum tíu, tilurð þeirra, sögu og merkingu.

„Boðorðin eru auðvitað ævaforn, ættuð frá Miðausturlöndum 2000 árum fyrir Krist. Kirkjan hefur meira að segja breytt þeim í aldanna rás, fellt niður annað boðorðið, sem fjallaði um myndbann, og skipt því tíunda í tvennt. Svo þau væru áfram tíu. En í grunninn byggja þau á ævafornum og sígildum sammannlegum boðum sem eru grundvöllur allra siðaðra samfélaga. Og samskipta milli manna."

Getum vel sammælst um að kenna þessi gildi

Þórhallur segir að Siðmennt og kirkjan hljóti að geta sammælst um að kenna boðskap boðorðanna, sem séu sígild og alltaf í gildi. „Ekki stela. Ekki ljúga. Ekki vera öfundsjúkur út í náungann. Ekki drepa hvort annað. Ekki svíkja maka þinn. Annastu aldraða foreldra þína. Ekki gera peninga, fíkniefni, eđa eitthvað annað slíkt að því sem þú tilbiður í lífinu. Er þetta flókið og erfitt að samþykkja?“

Líka Garðakirkja og Siðmennt

Hann segir að vissulega þurfi að útskýra þennan texta boðorðanna svo fólk geti nýtt sér hann.

„Jesús gerði það með skýrum hætti. Hann sagði að öll boðorðin fælust í þessu eina: „Allt sem þið viljið að aðrir menn geri ykkur skulið þið gera fyrir þá.“ Þetta er nú ekki flókið og allir ættu að geta skrifað undir þessi orð Jesú og kennt þau. Líka Garðakirkja og Siðmennt.“

mbl.is