Heimilislausir boða til annars setuverkfalls

Neyðarskýlinu á Granda er ætlað yngri heimilislausum karlmönnum.
Neyðarskýlinu á Granda er ætlað yngri heimilislausum karlmönnum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Viðmót, sam­tök um mannúðlega vímu­efna­stefnu á Íslandi, hafa boðað til annars setu­verk­falls í neyðaskýl­inu á Grandag­arði 1a, sem er úrræði fyr­ir heim­il­is­lausa karl­menn á veg­um Vel­ferðarsviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, á morgun.

Samtökin krefjast þess annars vegar að það verði heilsdagsopnun í neyðarskýlum þegar það er gul viðvörun eða hærra og hins vegar að það verði opnað dagsetur á daginn fyrir heimilislausa karlmenn í Reykjavík í samlíkingu við Skjólið sem er dagsetur fyrir konur.

„Það er að koma vetur“

Í tilkynningu frá Viðmótum segir að samtökin fagna því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar leggi áherslu á að finna varanlega búsetukosti fyrir einstaklinga sem glíma við heimilisleysi og nýta sér neyðarskýlin í Reykjavík. Aftur á móti leysir það ekki vandann sem heimilislausir karlmenn standa frammi fyrir þessa stundina.

„Það er að koma vetur, það er orðið kalt og er staðreyndin sú að við höfum ekki í nein hús að venda frá kl 10:00-17:00 þegar neyðaskýlin eru lokuð.“

Upplifa sig ekki velkomna 

„Við vitum vel að bókasöfnin eru opin á daginn en upplifum það alls ekki sem valkost sem hentar okkur öllum né bókasöfnunum sjálfum. Við upplifum okkur ekki alltaf velkomna þangað enda glíma margir okkar við fjölþættan og flókinn vanda þ.á m. nota vímuefni, og þurfum við ákveðna þjónustu og ramma sem að bókasöfn og almenn rými í samfélaginu eru ekki fær um að veita okkur.

Við vitum líka vel að Kaffistofa Samhjálpar og Hjálpræðisherinn eru opin að hluta til á daginn en þessi úrræði eru mataraðstoð og geta ekki mætt okkar þörfum fyrir öruggan stað á daginn. Ef borginni er annt um reisn okkar, heilsu og mannréttindi ætti hún að leggja áherslu á og beita sér fyrir mannsæmandi úrræði bæði núna og til frambúðar.”

Samtökin munu halda áfram að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með friðsamlegum mótmælum þar til „sanngjörnum og mannúðlegum kröfum okkar er mætt“.

mbl.is