Fjögurra vikna varðhald staðfest í hryðjuverkamáli

Landsréttur staðfesti fjögurra vikna varðhald yfir mönnunum tveimur.
Landsréttur staðfesti fjögurra vikna varðhald yfir mönnunum tveimur. mbl.is/Arnþór

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka hér á landi. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is.

Varðhaldið stendur til og með 10. nóvember, en ekki var farið fram á að mennirnir yrðu áfram í einangrun eins og þeir höfðu verið.

Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson hefur tekið við sem verjandi annars mannsins, en í samtali við mbl.is staðfestir hann að hefðbundið geðmat muni fara fram í málinu. RÚV greindi frá því að lögregla hefði óskað eftir slíku mati til að meta hversu mikil alvara hafi verið í skilaboðum sem mennirnir höfðu sent sín á milli, m.a. þar sem þeir ræddu um morð og árásir á nafngreint fólk og stofnanir.

Báðir karlmennirnir eru á þrítugsaldri og voru handteknir í kjölfar aðgerða lögreglu fyrir tæplega mánuði síðan.

Síðan þá hafa nokkrir einstaklingar stigið fram eftir að hafa farið í skýrslutöku hjá lögreglu. Þar kom meðal annars fram að mennirnir höfðu rætt morð eða árásir á þá. Þeirra á meðal eru Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra, verkalýðsleiðtoginn Sólveig Anna Jónsdóttir og Gunnar Smári Egilsson, formaður fram­kvæmda­stjórn­ar Sósí­al­ista­flokks­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert