Næturstrætó hættir akstri

Stjórn Strætó samþykkti þann 4. júlí sl. að hefja akstur …
Stjórn Strætó samþykkti þann 4. júlí sl. að hefja akstur næturstrætó um helgar til reynslu út septembermánuð. mbl.is/Hjörtur

Stjórn Strætó hefur tekið ákvörðun um að hætta akstri næturstrætó um helgar og hefur ákvörðunin þegar tekið gildi. Farþegafjöldi hefur verið undir væntingum og í ljósi fjárhagsstöðu fyrirtækisins telur stjórnin ekki réttlætanlegt að halda áfram akstrinum.

Mun ákvörðunin hafa áhrif á leiðir 101, 102, 103, 104, 105, 106 og 107.

Stjórn Strætó samþykkti í júlí að hefja akstur næturstrætó um helgar til reynslu út septembermánuð. Reynslutímanum er nú lokið og er ljóst að væntingar um farþegafjölda hafa ekki staðist, að því er fram kemur í tilkynningu Strætó

Í tilkynningunni segir jafnframt að farþegafjöldi hverrar helgar hafi verið um 300 til 400 og að meðaltali 14 til 16 í hverri ferð, sem er talsvert undir „ásættanlegum viðmiðum.“

Í ljósi þessa og fjárhagsstöðu Strætó, samþykkti stjórn Strætó að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram akstri næturstrætó um helgar nú að loknum reynslutíma og verður því þeirri þjónustu hætt.

mbl.is