Var aðeins dropinn sem fyllti mælinn

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Stjórn Framsýnar stéttarfélags segir að það sem gerðist á nýafstöðnu þingi ASÍ hafi aðeins verið dropinn sem fyllti mælinn, eftir harðvítugar og langvinnar deilur innan ASÍ.

Í ályktun harmar félagið atburðarásina sem leiddi til þess að fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur gengu á dyr.

„Félagið hafnar því alfarið að ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar sé á ábyrgð þeirra stéttarfélaga sem gagnrýnt hafa skort á gagnsæi og lýðræðislegum starfsháttum innan ASÍ og kallað eftir breytingum þar um. Opin og lýðræðisleg umræða um það hvernig verkalýðshreyfingin eigi að starfa og hvert hún skuli stefna hlýtur að vera forsenda þess að fólk geti unnið saman,“ segir í ályktuninni.

Félagið segist einnig telja mjög brýnt í ljósi komandi viðræðna um kjarasamninga að deiluaðilar „slíðri sverð sín og einbeiti sér að því að komast upp úr þeim hjólförum sem deilan virðist föst í“.

„Verkefni verkalýðshreyfingarinnar verða hér eftir sem hingað til að ná farsælum samningum fyrir launafólk í landinu. Slagkraftur hreyfingarinnar felst fyrst og síðast í því að aðildarfélögin geti tekist á um einstök atriði, en hafi þroska til að fylkja liði á bak við niðurstöðuna þegar hún er fengin.“                          

mbl.is