Vísuðu til sakaferils og staðfestu gæsluvarðhald

Ólafsfjörður.
Ólafsfjörður. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Landsréttur staðfesti í gær áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim sem hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins í Ólafsfirði í byrjun október. Fjórir voru upprunalega handteknir vegna manndrápsins en aðeins einn situr eftir í gæsluvarðhaldi.

Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu tíunda október að sakborningurinn skildi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi en sakborningur skaut úrskurðinum til Landsréttar í kjölfarið. Nú hefur Landsréttur staðfest niðurstöðu héraðsdóms og mun sakborningur því sæta gæsluvarðhaldi til 7. nóvember.

Grunaður um þó nokkur brot á árinu

Landsréttur tók fram í úrskurði sínum að ætla megi að sakborningur myndi halda áfram að brjóta af sér ef hann gengi laus og ekki væri búið að dæma í máli hans. Því til rökstuðnings vísar Landsréttur til sakaferils sakbornings.

Sem dæmi nefnir dómurinn að eftir að sakborningi var veitt reynslulausn frá fangelsisrefsingu í mars 2022 hafi hann átt aðild að ýmsum málum.

Sakborningi var þá gefið að sök húsbrot og eignaspjöll þann 12. júlí 2022. Þá er hann einnig grunaður um innflutning fíkniefna fyrr á árinu og rán, frelsissviptingu, eignaspjöll, líkamsárás og þjófnað þann 6. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert