Kostar 1,5 milljarða á mánuði í tvo áratugi verði ekkert gert

Bjarni Benediktsson kynnir skýrsluna um ÍL-sjóð.
Bjarni Benediktsson kynnir skýrsluna um ÍL-sjóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum ÍL-sjóðs. Vaxtamunur er óbreyttur og verður það að óbreyttu áfram. Gera má ráð fyrir að sjóðurinn tapi 1,5 milljörðum á hverjum mánuði sem líður eða 18 milljörðum á ári. Þessi staða er bara að fara að versna. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi um stöðu og framtíð sjóðsins.

Þar lagði hann fram þrjár leiðir varðandi framtíð sjóðsins, en ef ekkert er að gert og sjóðurinn mun lifa út líftíma sinn myndi ríkissjóður þurfa að leggja honum til 200 milljarða króna að núvirði. Væri sjóðurinn hins vegar gerður upp í dag með sölu eigna og greiðslu á skuldum væri neikvæð staða hans 47 milljarðar. Væri það því sparnaður upp á um 150 milljarða.

ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu gamla Íbúðalánasjóðsins. Hann heldur utan um lánasafn Íbúðalánasjóðs en stofnun sjálf sameinaðist Mannvirkjastofnun í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en sjóðurinn er með ríkisábyrgð á skuldbindingum sínum.

Aðspurður um af hverju þessi tímapunktur varð fyrir valinu segir Bjarni: „Við höfum haft í nógu að snúast undan farin ár meðal annars að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Það var ljóst frá því ÍL-sjóður var stofnaður að það yrði afar krefjandi verk að lágmarka tjón ríkisins vegna ríkisábyrgðarinnar. Eftir að hafa látið greina frammi fyrir hvaða valkostum við stóðum þá fannst mér ekki eftir neinu að bíða að horfast í augu við þessa stöðu. Það er alvarlegt mál að vandinn vaxi um 1,5 milljarða í hverjum mánuði og við getum í raun ekki horft í hina áttina.

Sjóðurinn á eignir til að greiða af skuldum til 2034 og eigi síðar en þá mun reyna á ríkisábyrgð. Ríkissjóði og komandi kynslóðum í hag þurfi því að stíga inn strax.

Aðspurður hvort hægt hefði verið að bregðast fyrr við þessum vanda og grípa til aðgerða sagði Bjarni: „Þetta er í fyrsta skipti sem lagt er til að við horfumst í augu við þennan fortíðarvanda og svörum því hvaða leið er rétt að fara. Í sjálfu sér hefði ég getað setið hér út þetta kjörtímabil og heill áratugur liðið þar til að sjóðurinn lenti í raunverulegum greiðsluvanda og tæmdi eignir sínar en ég vil ekki sjá það gerast og grípa strax inn í.“

Þrjár leiðir eru færar:

Leið 1: Leggja sjóðnum til fjármuni til að greiða af skuldum til 2044. Bíða og sjá, lendir á ríkissjóði með einum eða öðrum hætti. 

Leið 2: Greiðsluþrot ÍL-sjóðs er fyrirséð án frekari fjárframlaga ríkissjóðs. Ef til slita kæmi myndu allar skuldir gjaldfalla og til ríkisábyrgðar koma.

Leið 3: Samkomulag við skuldabréfaeigendur um uppgjör skulda ÍL-sjóðs. Ráðherra þegar falið sérstökum milligönguaðila að kanna möguleika á sliku samkomulagi á næstu vikum.

Í ljósi skyldu Bjarna sem fjármálaráðherra að lágmarka skuldbindingar, þá geta þau einungis gefið sér vikur til að ná samkomulagi. Ef árið líður, þá mun hann leggja til frumvarp á þinginu sem líkist leið 2.

Að sögn Bjarna er enginn valkostur góður valkostur en Alþingi verður að taka afstöðu ef möguleiki 3 gengur ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert