„Það er af ástæðu sem þessir miðlar eru með aldurstakmörk“

Mikla athygli vakti í gær þegar hin 12 ára Ísabella …
Mikla athygli vakti í gær þegar hin 12 ára Ísabella Von steig fram og lýsti hrottalegu einelti sem hún hefur orðið fyrir síðasta rúma árið. Samsett mynd

Börn undir 13 ára eru of ung til þess að vera á samfélagsmiðlum samkvæmt skilmálum nær allra þeirra.

Bæði er ólöglegt fyrir fyrirtækin að safna gögnum um börn undir 13 ára en þar að auki eru skiptar skoðanir hvort þau sem yngri eru hafi einfaldlega náð þroska til þess að vera á miðlunum.

Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur í miðlanotkun barna og ungmenna hjá SAFT, segir í samtali við mbl.is að mikilvægt sé að kenna börnum að nota netið, líkt og um umferðarreglur sé að ræða, og að þau séu óhrædd að tilkynna neteinelti sem þau verða fyrir.

Mikla athygli vakti í gær þegar hin 12 ára Ísabella Von steig fram og lýsti hrottalegu einelti sem hún hefur orðið fyrir síðasta rúma árið, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla.

Netsáttmáli foreldra 

Sigurður segir samkomubannið í heimsfaraldrinum hafi stóraukið miðlanotkun barna sem ekki séu komin með aldur.

„Við misstum svolítið tökin í Covid, hleyptum krökkum á miðla sem þau hafa ekki náð þroska til vera á. Það er af ástæðu sem þessir miðlar eru með aldurstakmörk.“

Segir hann SAFT hvetja foreldra til að fylgja aldursviðmiðum en mikilvægt sé að foreldrar leggist saman á eitt og ákveði í sameiningu hvaða reglur eigi að gilda fyrir barnahópinn – svokallaðan „netsáttmála“.

Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur í miðlanotkun barna og ungmenna hjá SAFT.
Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur í miðlanotkun barna og ungmenna hjá SAFT.

„Að það sé ekki þannig að hluti barnanna megi fara inn á Snapchat, þá fara hin börnin að segja að allir séu á þessu. Við viljum að reglur séu skýrar. Börn eru að kalla eftir þessum ramma en við erum svolítið á eftir, að búa til þennan ramma fyrir börnin.“

Líkt og umferðarreglurnar

Sigurður segir að netið sé eitthvað sem þarf að kenna börnunum á, rétt eins og þeim er kennt á umferðarreglurnar og að synda í skólasundi.

„Við hendum ekki barni í djúpu laugina og skiljum það eftir áður en við kennum því að synda,“ segir hann og nefnir að á meðan internetið sé frábært sé þar einnig mikið að varast.

„Við þurfum að kenna börnum frá blautu barnsbeini hvernig það á að haga sér á netinu og að þau skammist sín ekki fyrir að leita að hjálp. Að foreldrar geti talað við börnin um þetta og skólarnir líka.“

Gjörn á að benda hvert á annað

Lendi börn í neteinelti þurfi að vera skýrar leiðir hvert hægt sé að leita, börn leiti á rétta staði og séu óhrædd við að leita sér hjálpar.

„Við erum svolítið gjörn á það að benda hvert á annað. Á skólinn að sjá um þetta? Eiga foreldrar að sjá um þetta? Staðreyndin er sú að við þurfum að vinna saman í þessu: Skólinn og foreldrar.“

Ekki megi líka gleyma að ræða við börnin, enda þau sem málið varðar. „Þau geta verið hinn mesti viskubrunnur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert