Mæðgurnar segja stuðninginn ómetanlegan

Fjöldi skilaboða hefur verið sendur til þeirra mæðgna. Meðal annars …
Fjöldi skilaboða hefur verið sendur til þeirra mæðgna. Meðal annars hefur stuðningsorðum og gjöfum rignt yfir dóttur hennar. mbl.is/Arnþór

Stöðugur straumur hefur verið á heimili Sædísar Hrannar Samúelsdóttur í Hafnarfirði síðan hún steig fram og greindi opinberlega frá grófu einelti í garð dóttur sinnar og sjálfsvígstilraunar í kjölfarið. Meðal annars hafa foreldrar einhverra þeirra barna sem hafa lagt hana í einelti og börnin sjálf komið til að sýna stuðning og biðjast afsökunar.

Fjöldi skilaboða hefur verið sendur til þeirra mæðgna. Meðal annars hefur stuðningsorðum og gjöfum rignt yfir dóttur hennar.

„Þau hafa verið ótrúleg. Við erum orðlausar,“ segir Sædís Hrönn um viðbrögðin. „Þetta er bara endalaust. Það eru allir að gera eitthvað.“

„Það hafa margir beðist afsökunar og hún hefur fyrirgefið sumum,“ heldur hún áfram um dóttur sína og segir stuðninginn og hlýhuginn almennt vera ómetanlegan. Þær mæðgur séu mjög þakklátar.

Sjá ekki eftir neinu

Spurð hvort hún sjái nokkuð eftir því að hafa stigið fram og greint frá málinu, miðað við viðbrögðin, segir hún að hvorki hún né dóttir sín sjái eftir því. Stúlkunni hafi ekki liðið illa í kjölfarið. Hún sé þvert á móti á batavegi og hafi sýnt mikinn styrk.

„Ég er að vona að þetta veki fólk til umhugsunar og við breytumst sem samfélag. Börnin okkar eiga það alveg inni hjá okkur,“ segir Sædís Hrönn og á þar meðal annars við ummæli fullorðinna á samfélagsmiðlum. „Það þarf eitthvað að gera því þetta er ekkert einsdæmi. Þetta er að grassera þarna úti,“ bætir hún við um einelti.

Hafa skólayfirvöld verið í sambandi við ykkur út af málinu?

„Það hefur verið hringt þrisvar og við erum að fara á fund til þeirra eftir helgina,“ svarar Sædís Hrönn, sem kveðst að einhverju leyti vera ánægð með viðbrögð Hraunvallaskóla, þar sem dóttir hennar stundar nám. „Þau segja að þeim finnist þetta hræðilegt mál, þau standi með okkur og hugur þeirra sé hjá okkur. Þau vilja gera ýmislegt og ætla að bregðast við með mörgum hætti.“

Spurð segist hún ekki vita hvernig skólinn hefur eða ætlar að bregðast við varðandi börnin sem hafa lagt dóttur hennar í einelti. Stúlkan hefur ekki snúið aftur í skólann og kveðst Sædís Hrönn ekki vita hvenær hún gerir það.

„Stórt takk til allra“

Frænka hennar, Ingibjörg Gróa, efndi til söfnunar fyrir þær mægður. Sædís er að vonum himinlifandi yfir framtakinu og segist ótrúlega heppin að eiga þessa hugulsömu frænku sína að, en þær eru systkinabörn.

„Ég er þakklát öllum í samfélaginu og við mæðgur báðar. Við segjum bara stórt takk til allra.“

Ef þú upp­lif­ir van­líðan, sjálfs­vígs­hugs­an­ir eða hef­ur áhyggj­ur af ein­hverj­um í kring­um þig get­ur þú leitað til Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 (opið all­an sól­ar­hring­inn), Píeta-sam­tak­anna í síma 552 2218 eða bráðamót­töku geðsviðs Land­spít­al­ans í síma 543 4050.

Hraunvallaskóli í Hafnarfirði.
Hraunvallaskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert