Covid-smitaður ferðamaður fær endurgreiðslu

Fólk í bið eftir sýnatöku við Suðurlandsbraut.
Fólk í bið eftir sýnatöku við Suðurlandsbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur gert íslensku hóteli að endurgreiða ferðamanni tæpar 50 þúsund krónur.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að ferðamaðurinn hafi hinn 5. mars síðastliðinn greitt fyrirfram fyrir gistingu á hótelinu í fjórar nætur, en um svokallaða óafturkræfa bókun var að ræða.

Ferðamaðurinn sem kærði málið sagði starfsmann hótelsins hafa sagt honum við komu til landsins að hann gæti ekki dvalist þar vegna þess að hótelið hefði vitneskju um að ferðamaðurinn hefði greinst með Covid-19.

Ferðamaðurinn óskaði eftir endurgreiðslu en því var hafnað. Þess í stað var honum boðin inneign til notkunar á næstu tólf mánuðum.

Ekki á lista Ferðamálastofu

Sjónarmið hótelsins var á þann veg að bókun ferðamannsins hafi verið gerð degi fyrir komudag, þrátt fyrir að hótelið hafi ekki verið á lista Ferðamálastofu yfir þá gististaði sem hafi verið tilbúnir til að taka á móti gestum í sóttkví vegna Covid-19.

Þess vegna hafi hótelið talið sig geta hafnað því að taka á móti gestum sem hefðu greinst með sjúkdóminn í því skyni að vernda heilsu annarra gesta á hótelinu. Vegna skipulags hótelsins hafi það ekki getað tryggt aðskilnað gesta með Covid og annarra gesta.

Skyldugt til að veita þjónustuna

Kærunefndin féllst ekki á þessi rök hótelsins. „Líta verður til þess að skylda varnaraðila samkvæmt samningi málsaðila var að veita sóknaraðila þjónustu við gistingu og skylda sóknaraðila var sú að greiða fyrir þjónustuna. Í málinu liggur fyrir að sóknaraðili hvorki afbókaði gistinguna né óskaði eftir breytingum á henni heldur var það varnaraðili sem synjaði að veita sóknaraðila hina umsömdu þjónustu. Ekki verður talið að aðstæður til ferðalaga hafi verið óvenjulegar í mars 2022, líkt og í byrjun COVID-19 faraldursins,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

„Þá verður ekki séð að útbreiðsla sjúkdómsins hafi staðið í vegi fyrir því að málsaðilum yrði fært að efna skyldur sínar samkvæmt samningnum, þá einkum í ljósi þess að öllum opinberum takmörkunum vegna faraldursins, bæði innanlands og á landamærunum, hafði verið aflétt á tíma hinnar umsömdu þjónustu. Þá er ekki unnt að fallast á það með varnaraðila að það að hótel varnaraðila hafi ekki verið skráð á lista Ferðamálastofu yfir þá gististaði sem reiðubúnir væru að taka á móti gestum í sóttkví leysti varnaraðila undan skyldum sínum samkvæmt samningi aðila, enda lá fyrir að skylda til að sæta sóttkví hafði verið afnumin,“ segir þar einnig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert