Haft áratug til að draga úr tjóni almennings

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Bjarni Benediksson.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Bjarni Benediksson. Samsett mynd

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir rétt að grípa inn í stöðu þar sem tap geti verið 18 milljarðar á ári, en gagnrýnir viðbragðstíma Bjarna Benedikssonar fjármálaráðherra og segir hann hafa haft tæpan áratug til að draga úr tjóni almennings.

Íbúðalánasjóður verður gjaldþrota innan tólf ára að öllu óbreyttu og þá mun reyna á ríkisábyrgð að baki honum. Eftir lokun markaða á fimmtudag kynnti ráðherra þá hugmynd að ná samkomulagi við lánardrottna sjóðsins sem fæli í sér samkomulag og uppgjör skulda. Það gæti sparað ríkissjóði 150 milljarða króna.

„Lánardrottnar eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir. Með öðrum orðum: almenningur í landinu. Ef þeir vilja ekki semja við fjármálaráðherra á allra næstu vikum ætlar hann að setja lög til að ná fram vilja sínum. Íbúðalánasjóðnum yrði þá í kjölfarið slitið á nýju ári, skuldir látnar gjaldfalla og ríkisábyrgð virkjuð,“ skrifar Þorbjörg í Facebook-færslu.

Hún segir viðbragðstíma fjármálaráðherra vekja athygli, þar sem hann hafi árum saman þekkt þessa stöðu.

„Þannig lá t.d. fyrir í apríl 2013 skýrsla um framtíðarhorfur sjóðsins þar sem fjallað var um mikla rekstrarerfiðleika. Fjármálaráðherra hefur einmitt setið í embætti frá 2013. Hann hefur haft tæpan áratug til að draga úr tjóni almennings,“ skrifar Þorbjörg.

„Í Morgunblaðinu í gær svaraði ráðherrann þeirri spurningu hvort ekki hefði mátt bregðast fyrr við. Þar segist hann hafa verið að skoða þessi mál gaumgæfilega frá 2019. Bara þessi þriggja ára skoðun ráðherrans hefur þá kostað tugi milljarða króna.

Það er rándýrt aðgerðaleysi og það er almenningur sem tekur reikninginn.“

mbl.is