Ekki rétt að slit ÍL-sjóðs þýði greiðslufall ríkisins

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef kemur til slita á ÍL-sjóði, gamla Íbúðalánasjóði, þýðir það ekki það sama og greiðslufall ríkisins. Þá munu slit sjóðsins heldur ekki hafa áhrif á lánstraust ríkisins. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í færslu á Facebook núna í morgun, en með orðum sínum svarar hann Má Wolfgang Mixa, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stjórnarmanns í Almenna lífeyrissjóðinum, sem fór yfir stöðu ÍL-sjóðs í Kastljósi í gær.

Bjarni segir það ekki koma á óvart að kröfuhafar hafi helst ekki viljað vita af þessu máli og einfaldlega fá fullar efnir á skuldum sjóðsins. Vandinn sé hins vegar að sjóðurinn eigi ekki fyrir skuldum sínum. Segist hann í framhaldinu gera tvær athugasemdir við málflutning Más.

„Þessu verð ég að mótmæla harðlega“

Hið fyrra snýst um að ef ÍL-sjóði verði slitið myndi það jafngilda greiðslufalli ríkissjóðs. „Þessu verð ég að mótmæla harðlega,“ segir Bjarni og bætir við að slit sjóðsins gjaldfelli allar kröfur á sjóðinn. Við það virkist ríkisábyrgðin sem tryggi uppgjör höfuðstóls og áfallinna vaxta. Ríkið muni því axla ábyrgð á skuldbindingum sínum í samræmi við skilmála og lög og þar með efna ríkisábyrgðina.

Síðara atriðið snýst um lánstraust ríkisins og hvort að slit sjóðsins hafi áhrif á það. Segir Bjarni að með því að eyða óvissu um ÍL-sjóð og standa við ríkisábyrgðina, sem hann ítrekar að sé svokölluð einföld ábyrgð, sé komið í veg fyrir frekari uppsöfnun vandans. „Slíkt eykur jafnan traust. Óvissa og óþarfa skuldaaukning dregur á hinn bóginn úr trausti,“ segir Bjarni. Frekari uppsöfnun vandans dragi hins vegar úr trausti.

Ætlar ekki að samþykkja að velta vandanum áfram

Segist Bjarni vonast til þess að farsæl lausn fáist í málið með viðræðum ríkisins og kröfuhafa þar sem útgangspunkturinn verði að vera lagaleg staða málsins. „Ég mun hins vegar ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins. Það væri bæði óábyrgt og rangt. Sama hvað þeir sem horfa eingöngu á málið út frá þröngum hagsmunum kröfuhafans segja,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert