Mikil dómharka og dónaskapur á netinu

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Árni Sæberg

Talsverð breyting er á hegðun Íslendinga á netinu undanfarin sex ár og er fólk stóryrtara á netinu eftir Covid-faraldurinn og í kjölfar metoo-byltingarinnar. Þá segjast konur heimsækja síður klámsíður, en fleiri tilfelli kynferðisbrota á netinu eru nefnd í könnun á nethegðun.

„Við erum að skoða reynslu Íslendinga af netbrotum eða netglæpum. Þetta er samvinnuverkefni við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og við Jónas höfum lagt þennan spurningalista fyrir fjórum sinnum, síðast núna snemmsumars 2022 en líka árin 2020, 2018 og 2016,“ segir Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði, sem í félagi við Jónas Orra Jónasson sérfræðing hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, heldur fyrirlestur um netglæpi á föstudaginn á ráðstefnunni Þjóðarspegill XXII í Háskóla Íslands.

Ólöglegt niðurhal minnkað

Helgi segir að það sé áhugavert að skoða breytingarnar á þessu tímabili, en spurningalistinn er lagður fyrir úrtak fólks sem er 18 ára og eldra og endurspeglar vel þann hluta þjóðarinnar. Helgi segir að samkvæmt þessum könnunum sé netnotkun Íslendinga mjög mikil og flestir nota netið á hverjum degi. Helgi segir að með könnuninni sé bæði litið til hegðunar viðkomandi á netinu og síðan hvort viðkomandi hafi orðið fyrir netglæpum.

Hann segir að ein spurningin sé hvort viðkomandi hafi hlaðið niður ólöglegu efni á síðustu mánuðum. „Það sem við erum að sjá er að það hefur dregið mjög mikið úr því markvisst frá 2016, og þá spyr maður sig hvort mikið úrval af löglegum veitum á sjónvarpsefni og fyrir tónlist hafi haft þar úrslitaáhrif.“

Kynjamunur í kláminu

Síðan er spurt um hvort viðkomandi hafi heimsótt klámfengnar síður á síðustu þremur mánuðum. “Það er töluvert um það og mun algengara meðal karla en kvenna. Það voru um 40% karla sem svöruðu játandi á meðan sambærilegt hlutfall var 11% hjá konum. Það sem mér finnst áhugavert hér er þessi kynjamunur en líka að þegar við mældum þetta árið 2016, sem var fyrir metoo byltinguna, að frá þeim tíma dró strax töluvert úr fjölda þeirra kvenna sem sögðust hafa farið inn á klámfengnar síður á netinu og það var strax 2018 hafði munurinn milli kynjanna því breikkað mjög í kjölfar þeirrar umræðu. Aftur á móti hafa svör karlanna verið á svipuðu róli á þessum tíma og koma yngri karlar hærra út þarna en eldri.”

AFP

Persónulegar svívirðingar algengastar

Heldur hefur fækkað í hópnum sem segjast hafa orðið fyrir netglæpum segir Helgi, en lögð var fyrir þátttakendur spurningin hvort þeir hefðu orðið fyrir netglæpum síðustu þrjú árin. Árið 2020 svöruðu 19% aðspurðra játandi en núna 16% hafa orðið fyrir netbroti.  Hins vegar verða margir fyrir fleira en einu broti. Við sjáum líka að þetta er algengast í yngsta hópnum eða 30 ára og yngri. Það passar alveg við niðurstöður erlendra rannsókna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.”

En hvaða brot ætli séu algengust á netinu? „Fjörutíu prósent þessara brota myndu falla í flokkinn meiðyrði, rógburð eða persónulegt skítkast. Þessi hópur sagðist hafa upplifað persónulegar svívirðingar í sinn garð á netinu og það má segja að hlutfall þessara brota hefur vaxið mjög,“ segir Helgi. „Þetta var kannski 25-30% brotanna í fyrri mælingum en stekkur upp núna og er komið í 40% allra netbrota, sem er umtalsverð aukning og er hæsta hlutfall sem við höfum séð.“

Helgi segir áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna þessi brot hafi aukist svona mikið frá 2020 næstu könnun á undan þeirri sem gerð var í sumar. „Erum við kannski að sjá afleiðingar af heimsfaraldri og samkomubanni? Það er ekki víst, en eitthvað hefur gerst á tímabilinu sem hefur áhrif á þessa aukningu, minna umburðarlyndi fyrir því sem telst öðruvísi. Fólk er kannski að lýsa skoðun sinni á einhverju á samfélagsmiðlum og fær þá yfir sig holskeflu af svívirðingum. Við sjáum að fólk man vel eftir þessu og þetta eru orð sem svíða.“

Minna um greiðslukortamisferli

Helgi segir að næstalgengustu netbrotin varði fjársvik í viðskiptum, þar sem fólk kaupir vöru sem samræmist ekki auglýstri lýsingu vörunnar. „Fólk er að kaupa eitthvað á netinu og telur sig ekki hafa fengið þá vöru sem það bjóst við samkvæmt lýsingu,” segir Helgi að þessar tvær tegundir brota séu þau sem oftast séu nefnd í öllum fjórum mælingunum frá 2016 til 2022.

Greiðslukortasvik hafa minnkað samkvæmt könnuninni í sumar.
Greiðslukortasvik hafa minnkað samkvæmt könnuninni í sumar.

Hann segir þó jákvæða þróun sýna sig þegar kemur að greiðslukortamisferli á netinu. „Færri segjast hafa orðið fyrir því, og hugsanlega eru greiðslukortafyrirtækin að taka vel á þessum málum.“

Helgi segir einnig að mynddreifingum án samþykkis hafi  fækkað á tímabilinu. „Kannski er fólk orðið varara um sig eftir mikla umræðu um þessi mál í fjölmiðlum undanfarin ár.“

Áhrif meetoo byltingarinnar

Hann segir að þegar bornar eru saman mælingar frá 2016 við hinar mælingarnar frá 2018, 2020 og 2022, þá er talsverð aukning á því að fólk nefni að það hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á netinu og sérstaklega meðal kvenna.

„Það eru hlutfallslega fleiri brot nefnd öll þessi þrjú ár heldur en 2016. Eina sem manni dettur í hug er metoo byltingin. Árið 2017 koma þess brot mikið upp á yfirborðið þegar þolendur stíga fram og tjá reynslu sína. Hugsanlega er þessi aukning skýrð með því að þolendur tjá sig frekar um þessi mál en áður, því ég hef litla trú á því að umræðan um þau hafi ýtt undir fleiri brot.“ Helgi segir að 2016 hafi kynferðisáreitni á netinu verið um 10-12% brota en séu núna á bilinu 20-22% sem sýni að fjöldinn hefur tvöfaldast.

Helgi segir að könnunin sýni að fólk er orðið árásargjarnara á netinu og dómharka sé mikil. „Lexían er sú að við þurfum að umgangast hvert annað með nærgætni á netinu, alveg eins og í raunheimum. Þetta eru samskipti og fólk tekur þetta nærri sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert