Hverjir mega mæta á landsfund Sjálfstæðisflokksins?

Af landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.
Af landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á landsfund Sjálfstæðisflokksins koma saman vel á annað þúsund fulltrúa hinna ýmsu sjálfstæðisfélaga um allt land. Fundarmenn geta átt seturétt á fundinum sem aðili úr flokksráði eða sem fulltrúi aðildarfélags. Þeir þurfa því að vera skráðir í flokkinn og skipaðir landsfundarfulltrúar. Rúmlega 600 manns eru í flokksráði og því mikill meirihluti fundargesta fulltrúar aðildarfélaga.

Fundurinn er að jafnaði haldinn annað hvert ár en fundurinn hefur æðsta vald í málefnum flokksins og markar heildarstefnu hans í landsmálum. Fundurinn fer fram 4. til 6. nóvember í ár í Laugardalshöll en á fundinum er æðsta forysta flokksins kosin og kosið í stjórnir málefnanefnda. 

Rúmlega 600 manns í flokksráði

Í flokksráði eiga rúmlega 600 manns sæti. Formaður Sjálfstæðisflokksins er formaður flokksráðs en auk hans eru sjálfkjörnir í flokksráðið varaformaður, ritari, miðstjórn, framkvæmdastjórn, fjármálaráð, upplýsinga- og fræðslunefnd, stjórn sveitarstjórnaráðs og fastráðnir starfsmenn flokksins í fullu starfi.

Alþingismenn og frambjóðendur í aðalsætum á framboðslista flokksins við alþingiskosningar, sveitastjórnarmenn og frambjóðendur í aðalsætum á framboðslista flokksins við sveitarstjórnarkosningar hverju sinni, formenn og meðstjórnendur málefnanefnda flokksins, sveitarstjórnarmenn, stjórnir kjördæmisráða og fyrrverandi kjörnir alþingismenn flokksins eru auk þess sjálfkjörnir.

Meirihluti fulltrúi aðildarfélaga

Meirihluti þeirra sem sitja landsfundinn eru fulltrúar sinna aðildarfélaga og þurfa almennir flokksmenn að sækja um sæti á landsfundi í gegnum sín aðildarfélög. Aðildarfélögin kjósa fulltrúa til setu á fundinum, auk landssambanda og fulltrúaráða. Þeir sem fara fyrir hönd aðildarfélaganna á landsfund eru kosnir á fundi þessara félaga sem þarf að boða til lögum samkvæmt.

Starfsemi Sjálfstæðisflokksins er virk um allt land og telja aðildarfélög flokksins vel á annað hundrað. Af þessum mikla fjölda aðildarfélaga má t.d. nefna Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, Sjálfstæðisfélag Garðabæjar og Sjálfstæðisfélag Kjalnesinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert