Áætla 6 milljarða tap og takmörk sett á ráðningar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að almennur rekstur Reykjavíkurborgar, eða rekstur A-hluta borgarsjóðs, verði neikvæður um 6 milljarða á komandi ári, en að með aðhaldsaðgerðum muni takast að ná jákvæðri niðurstöðu árið 2024. Til samanburðar gerir útkomuspá nú ráð fyrir að rekstur A-hlutans á þessu ári verði neikvæður um 15,3 milljarða. Þá verða settar á miklar takmarkanir varðandi ráðningar á nýju starfsfólki. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár sem og í fimm ára áætlun hennar, en umræða um fjárhagsáætlunina fer fram í borgarstjórn í dag.

Fram kemur að afkomuspáin fyrir þetta ár sé talsvert lakari en áætlanir hafi gert ráð fyrir, en það skýrist af verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks.

Borgin boðar aðhalds- og hagræðingaraðgerðir á komandi árum. „Fjárhagsáætlun A-hluta einkennist af aðhaldi í rekstri og aðgerðum sem taka mið af markmiðum og megináherslum fjármálastefnu 2023-2027,“ segir í tilkynningu frá borginni. Þá er sérstaklega tekið fram að eitt af markmiðum og megináherslum í fjármálastjórn borgarinnar næstu fimm árin verði „Að ná fram hagræðingu í rekstri og lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum.“

Jákvæð niðurstaða ef horft er til B-hlutans

Þrátt fyrir neikvæða útkomuspá fyrir þetta ár og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár gerir borgin ráð fyrir að sameiginleg rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð á næsta ára um 8,1 milljarð. Í B-hlutanum eru meðal annars félög sem eru að hluta eða að öllu leyti í eigu borgarinnar, m.a. Orkuveita Reykjavíkur og Félagsbústaðir.

Fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að afkoma ársins verði jákvæð um 15,4 milljarða þegar horft er til bæði A- og B-hluta, en það þýðir að áætlað er að B-hlutinn skili um 30 milljarða afgangi.

Gert er ráð fyrir að í lok næsta árs muni eignir borgarinnar nema 923 milljörðum og aukast um 76 milljarða milli ára. Þá er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 49,8% og hækki um 2%.

Í tilkynningu vegna fjárhagsáætlunarinnar kemur fram að heimsfaraldurinn hafi haft mikil áhrif á rekstur borgarinnar og að hröð kólnun í hagkerfinu og á vinnumarkaði hafi leitt til þess að tekjur árin 2020 og 2021 hafi verið undir áætlun. „Vonir stóðu til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á árinu 2022 og að hagkerfi heimsins kæmust á sama stað og fyrir faraldur en það hefur ekki gengið að fullu eftir,” segir þar jafnframt.

Fjárhagsleg sjálfbærni í hættu og skerðingar í velferðarþjónustu

Þá er í tilkynningunni vísað til þess að vanfjármögnun sé frá ríkinu á rekstri málaflokks fatlaðs fólks sem hafi farið sívaxandi á umliðnum árum og ógni nú fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar.

„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, en tekið er fram að í fjárhagsáætluninni sé mið tekið af þessum veruleika og aðhald í framlögum til málaflokkanna.

Engar ráðningar nema brýna nauðsyn beri til

Einnig er horft til hagræðingar á fleiri stöðum, t.a.m. varðandi ráðningar. „Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert