„Hrærð yfir stuðningnum“

Rebecca er með dýragarð og dýraathvarf á Hólum.
Rebecca er með dýragarð og dýraathvarf á Hólum. Ljósmynd/Ágúst Elí Ágústsson

Rebeccu Cathrine Kaad Ostenfeld var í gær sagt upp störfum í Krambúðinni í Búðardal. Hún hefur verið afar vel liðin af viðskiptavinum sem hafa sent henni skilaboð, hringt og komið í heimsókn til hennar eftir að henni var sagt upp störfum. Henni var sagt upp vegna skipulagsbreytinga en fékk að vita að hún talaði of mikið.

Rebecca eða Rebba eins og hún er kölluð er afar vinsæl á meðal viðskiptavina Krambúðarinnar en hún hefur starfað í yfir 10 ár í versluninni. Hún segir að hún sé enn þá í áfalli en sé hrærð yfir þeim stuðningi sem hún hefur fengið.

„Röddin er farin, ég er búin að tala við svo marga. Einn var núna að fara sem kom til mín í heimsókn að knúsa mig og sagði við mig að ég væri besti starfsmaðurinn. Ég er búin að fá svo mörg skilaboð og símtöl og ég er bara svo þakklát," segir Rebecca.

Eftir að hafa búið í yfir 20 ár á svæðinu hefur Rebecca fest rætur og á íslenskan mann, þrjú börn auk þess að vera með dýragarð og dýraathvarf á Hólum. Hún segir hlutina hafa breyst til hins verra eftir komu Krambúðarinnar.

„Ég á íslenskan mann, þrjú börn og er með dýragarð og dýraathvarf á Hólum. Ég er þar yfir sumarið í launalausu leyfi frá búðinni í þrjá mánuði og vinn yfir veturinn í búðinni. Ég hef unnið þarna í fjöldamörg ár og það er ekki Samkaup sem er vandamálið heldur er það Krambúðin. Eftir að Krambúðin kom þá varð mikil breyting en það eru nokkur ár síðan. Þá kom nýr verslunarstjóri og nýr yfirmaður fyrir Krambúðina,“ segir Rebecca.

Sagt upp klædd í hrekkjavökubúning

Uppsögnina fékk Rebecca í gær þegar hrekkjavakan er haldin og var hún búin að klæða sig í búning í tilefni dagsins. Hún fékk engan fyrirvara og fékk að vita að uppsögnin væri vegna skipulagsbreytinga en fékk að vita að henni hefði verið sagt að hún talaði of mikið.

„Ég er enn þá að meðtaka þetta en ég fékk skilaboð á sunnudaginn um að ég mætti koma í hrekkjavökubúning ef ég vildi. Ég mæti og er sú eina sem er í búningi af þremur starfsmönnum en búðin var ótrúlega flott og vel skreytt. Ég er með „blóð“ út um allt með matarlit og lít út fyrir að ég hafi lent í bílslysi. Ég fór að vinna mína vinnu og svo kemur yfirmaður Krambúðarinnar sem sér um starfsmannamál og verslunarstjórinn og biðja um að fá að tala við mig. Ég labba inn og segi við hana hvað þetta sé nú formlegt og horfir hún þá á mig með köldu augnaráði og segir að hún sé að segja mér upp vegna skipulagsbreytinga. Ég sat og horfði á verslunarstjórann og byrja að gráta og hún segir við mig að hún hafi talað við mig um að ég talaði of mikið og að ég sé ekki búin að breyta því,“ segir Rebecca.

Rebecca hefur fest rætur á Íslandi, hún á íslenskan mann, …
Rebecca hefur fest rætur á Íslandi, hún á íslenskan mann, þrjú börn og er með dýragarð og dýraathvarf á Hólum. Ljósmynd/Dagmar Helga Bjartsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert