Óbreytt álagning fasteignagjalda í Reykjavík

Álagningarhlutfall fasteignagjalda verður áfram óbreytt í Reykjavík samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir …
Álagningarhlutfall fasteignagjalda verður áfram óbreytt í Reykjavík samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. mbl.is/Árni Sæberg

Gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli á fasteignagjöldum í Reykjavík fyrir næsta ári þrátt fyrir mikla hækkun á fasteignamati síðasta árið. Þetta þýðir að fasteignagjöld munu að meðaltali hækka um 20% milli ára fyrir þá sem eiga fasteign í Reykjavík. Jafnframt er áfram gert ráð fyrir óbreyttu útsvarshlutfalli, eða 14,52%.

Fjárhagsáætlunin og áætlun til næstu fimm ára voru kynntar í morgun og fara nú umræður um áætlanirnar fram í borgarstjórn. 

Fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði í Reykjavík eru í dag 0,18% af fasteignamati húss og lóðar og lóðarleiga er 0,2% af lóðarmati. Fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði eru hins vegar 1,6% og 1% af lóðarleiga.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Mynd/Skjáskot

Fyrr á árinu var greint frá því að heildarmat fasteigna hefði hækkað um 19,9% á landinu öllu og um rúmlega 20% á höfuðborgarsvæðinu. Upplýstu fjölmargir forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að horft yrði til þess að lækka álögurnar til að koma til móts við fyrirséðar hækkanir. Ekki fengust þó svör frá fulltrúum meirihlutans í Reykjavík á þeim tíma, en Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sem er í minnihluta í borginni, sagðist þeirrar skoðunar að lækka ætti álagningarhlutfall fasteignaskatta.

Í fimm ára áætluninni er gert ráð fyrir að útsvar verði óbreytt út tímabilið, en tekið er fram að horft sé til þess að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir í lok kjörtímabilsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina