Páll mætir til yfirheyrslu í dag

Páll Steingrímsson er á leið í yfirheyrslu.
Páll Steingrímsson er á leið í yfirheyrslu. Samsett mynd

Páll Steingrímsson, skipstjóri Samherja, mun mæta til yfirheyrslu hjá lögreglu í dag vegna kæru sem varðar meintar hótanir hans í garð blaðamanna sem fjölluðu um hina svokölluðu „skæruliðadeild“ Samherja. Hann greinir sjálfur frá þessu í færslu á Facebook.

Þórður Snær Júlíusson er einn af blaðamönnunum en hann greindi frá kærunni í grein á Kjarnanum, sem hann ritstýrir.

Málið má rekja til þess að Þórður og fleiri blaðamenn fengu stöðu sak­born­ings vegna meintra brota á friðhelgi einka­lífs í tengslum við um­fjöll­unina um „skæruliðadeildina“.

Páll, sem er einn af þeim starfsmönnum Samherja sem fjallað var um, lagði fram kæru til lögreglunnar en hann heldur því fram að símanum hans hafi verið stolið og gögn tekin úr honum í aðdraganda umfjöllunarinnar. Blaðamenn­irn­ir voru í kjölfarið boðaðir í skýrslu­töku.

Í samræmi við starfsreglur að kæra hótanir

Í grein á Kjarnanum sem birtist 20. september greinir Þórður Snær frá því að hann og fleiri fjölmiðlamenn hafi kært Pál fyrir hótun í þeirra garð sem barst í tölvupósti í júlí 2022. 

„Full ástæða var talin til að efast stór­lega um dóm­greind manns­ins þegar kemur að okkur og þar af leið­andi varð að taka hót­un­ina alvar­lega. Var þar meðal ann­ars horft til þess að fyrir liggur að Páll Stein­gríms­son hefur gefið það til kynna á sam­fé­lags­miðlum að hann sé ekki frá­hverfur því að nota skot­vopn á blaða­menn. Þá er það í sam­ræmi við starfs­reglur Kjarn­ans að kæra beinar hót­anir við aðstæður sem þess­ar,“ skrifar Þórður.

Fróðlegt að sjá gögnin

Í færslunni sem Páll birti á Facebook í gærkvöldi segir hann að fróðlegt verði að sjá gögn sem staðfesti þessar ásakanir.

„Tími okkar er líka takmörkuð auðlind sem þarf að nýta vel. Fyrir utan margvíslegan kostnað sem fylgir því að verjast ásökunum, sem flestir sjá og vita að eru langsóttar en auðvitað eru þessir blaðamenn ekki að gera neitt nema að reyna að kæla mig því ekki geta þeir svarað mér á annan hátt,“ skrifar Páll jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina