Allir lækka fasteignagjöld nema Reykjavík

Halla Karen Kristjánsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Þór Sigurgeirsson, Ásdís Kristjánsdóttir og …
Halla Karen Kristjánsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Þór Sigurgeirsson, Ásdís Kristjánsdóttir og Almar Guðmundsson. Samsett mynd

Áfram stendur til að lækka fasteignagjöld á móti mikilli hækkun fasteignamats hjá öllum stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu nema í Reykjavík.

Gert er ráð fyr­ir óbreyttu álagn­ing­ar­hlut­falli á fast­eigna­gjöld­um í Reykja­vík fyr­ir næsta ár. Það þýðir að fast­eigna­gjöld munu að meðaltali hækka um 20% milli ára fyr­ir þá sem eiga fast­eign í Reykja­vík.

Blaðamaður mbl.is tók stöðuna hjá Garðabæ, Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Mosfellsbæ, þar sem unnið er að fjárhagsáætlun næsta árs.

Skila íbúum Garðabæjar því sem þeir eiga

Alm­ar Guðmunds­son bæjarstjóri í Garðabæ, seg­ir áfram stefnt á það að lækka fasteignagjöld í sveitarfélaginu. 

„Okkar afstaða er óbreytt. Við erum að vinna í fjárhagsáætlun og ætlum að lækka gjöldin og skila því sem íbúarnir eiga í þessu ferli,“ segir Almar.

Hann gerir ráð fyrir því að tekjur sveitarfélagsins af fasteignagjöldum lækki um 150 milljónir á milli ára.

„Við erum að greina þetta betur og við gerum ráð fyrir því að sú tala muni hækka til að tryggja það að við séum að skila réttu hlutfalli til íbúanna.“

„Okkar afstaða er sú að við tökum tillit til verðlags, það er það eina sem við gerum. Að öðru leyti munum við skila íbúunum þessari hækkun á matstofninum þannig að þeir nýti fjármunina sjálfir í staðin fyrir að við séum að nýta þá í okkar þjónustu,“ segir Almar.

„Við viljum ekki að það sé sjálfkrafa hækkun á álögum á íbúanna eins og þetta skrýtna kerfi er teiknað upp, þess vegna ætlum við að skila þessum mismun til íbúanna.“

Áherslur óbreyttar í Kópavogi

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Kópa­vogi, sagði í maí að í sátt­mála meiri­hluta Kópa­vogs væri til­tekið að fast­eigna­skatt­ar lækki til móts við frek­ari hækk­un fast­eigna­verðs. Þannig væri komið til móts við hækk­un fast­eigna­mats.

 „Áherslur okkar standa óbreyttar og við munum koma til móts við boðaðar hækkanir á fasteignamati. Við kynnum nánar okkar áform á næsta bæjarstjórnarfundi,“ segir Ásdís.

Hún segir fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar verða tekna til umræðu í næstu viku hjá bæjarstjórn og þá verði allar forsendur opinberar.

Hækka ekki meira en 9,5% á Nesinu

Síðan mbl.is talaði við Þór Sig­ur­geirs­son, bæjarstjóra á Seltjarn­ar­nesi, í sumar segir hann ekkert hafa breyst nema verðbólguna.

Þór seg­ir að Seltjarn­ar­nes­bær muni bregðast við hækk­un fast­eigna­mats með lækk­un á álagn­ingar­pró­sentu.

„Við ætlum að mæta þessu að því marki að vísitala og verðbólga ræður þessu, við förum ekki hærra en 9,5%, það er okkar niðurstaða,“ segir Þór.

„Þetta er eitthvað það ósanngjarnasta sem þú getur látið út á þegnanna að fá þessa hækkun fasteignamats í fangið,“ segir Þór um ákvörðun borgaryfirvalda að lækka ekki prósentu fasteignagjalds til móts við mikla hækkun fasteignamats.

Heildarálagnin lækkar á milli ára í Hafnarfirði

Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, segir fasteignagjöld lækka á milli ára en hversu mikið er óvíst. 

„Heildarálagning fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækkar á milli ára,“ segir Rósa.

„Hvernig það verður gert, hvort það komi fram í lækkun fasteignaskattsins sjálfs eða í vatnsveitugjöldum eða öðru slíku á eftir að koma í ljós. Við stöndum við það að heildarálagning fasteignagjalda muni ekki vera meiri en vísitöluhækkun.“

„Þessi mikla hækkun á fasteignamati mun ekki lenda á íbúum umfram verðbólgu.“

Útfærslan rædd í Mosfellsbæ

Halla Kar­en Kristjáns­dótt­ir, formaður bæj­ar­ráðs í Mosfellsbæ, segir að verið sé að ræða málið um útfærsluna en þau muni koma til móts við íbúa sveitarfélagsins.

„Það vilja allir góða þjónustu og maður vill veita góða þjónustu og það kostar auðvitað og verðbólgan er eins og hún er. Vissulega ætlum við að koma á móts við, en hversu mikið það verður verður að koma í ljós,“ segir Halla Karen.

Hún segir fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun í sveitarfélaginu verða tekna fyrir í næstu viku.

mbl.is