Umboðsmaður skoði mál lögreglu gegn blaðamönnum

Sigríður Dögg Auðunsdóttir.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamannafélag Íslands hefur sent rökstutt erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem hann er hvattur til að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra vegna málatilbúnaðar þess gegn fjórum blaðamönnum, eða þeim Aðal­steini Kjart­ans­syni á Stund­inni, Arnari Þór Ing­ólfs­syni á Kjarn­an­um, Þóru Arn­órs­dóttur á RÚV og Þórði Snæ Júl­í­us­syni á Kjarn­an­um. 

Þetta kemur fram á vef Blaðamannafélags Íslands. 

Þar er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni BÍ, að það sé mikilvægt „að fá álit Umboðsmanns Alþingis á því hvort ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að kalla blaðamenn til yfirheyrslu fyrir það eitt að vinna vinnuna sína, hafi verið í samræmi við hlutverk lögreglu og þá vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum.“

„Blaðamannafélagið hefur ítrekað bent á að um störf fjölmiðla gilda önnur lög og reglur en önnur störf, vegna hlutverks fjölmiðla og mikilvægis þeirra fyrir lýðræðislega umræðu. Hlutverk umboðsmanns er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum og því mikilvægt að fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á rétti blaðamannanna fjögurra í þessu tilviki. Blaðamannafélagið minnir á mikilvægi fjölmiðla í því að tryggja almenningi rétt til upplýsinga og að frjáls fréttaflutningur og vernd heimildarmanna séu grundvallarforsendur fyrir því að fjölmiðlar geti gegnt hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir Sigríður Dögg enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert