„Bón okkar kann að virðast djörf“

Köttur á ferli.
Köttur á ferli. mbl.is/Golli

Beiðni samtakanna Villikatta um úthlutun lóðar var lögð fram á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun.

Óskað er eftir því að bærinn láti félaginu í té lóð við Kaplaskeið í Hafnarfirði án endurgjalds og án þess að gatnagerðargjöld eða önnur gjöld verði innheimt. Þar myndu samtökin reisa húsnæði þar sem villi- og vergangskisum yrði sinnt og þeim hjúkrað.

„Bón okkar kann að virðast djörf við fyrstu sýn en er, ef betur er gáð, sanngjörn og skiljanleg í ljósi þess að samræmt útreikningum samtakanna hafa þau sennilega sparað bæjarfélaginu 70-80 milljónir króna á þeim átta árum sem þau hafa starfað í sveitarfélaginu,” segir í beiðninni, sem Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, skrifar undir. Á þessum tíma hafi 2.139 kettir farið í gegnum samtökin.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir.
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir. mbl.is/RAX

Fram kemur að sjálfboðaliðar Villikatta hafi komið köttunum til dýralækna, sem gelda þá, ormhreinsa, skoða og gera að sárum þeirra. Sjálfboðaliðarnir hafi einnig tekið þessa sömu ketti í fóstur á meðan þeir jafna sig.

300 fermetra stálgrindarhús tilbúið

Bent er á að löggjafinn krefjist þess að sveitarfélög sinni dýrum sem eru týnd eða slösuð, hvort sem um ræðir villt dýr, gæludýr eða hálfvillt dýr.

„Við erum þegar komin með 300 fermetra stálgrindarhús sem bíður þess að geta þjónað kisum sem þessum. Um er að ræða gott og verðugt málefni, málefni sem ratar oft og reglulega í fjölmiðla. Hafnfirðingar hafa sýnt villiköttum einstakt atlæti í gegnum tíðina; nært þá, veitt þeim skjól og bæli, sem hefur haldið í þeim lífi öll þessi ár. Hafnarfjarðarbær getur verið stoltur frumkvöðull í að styðja við samtökin Villiketti og að leyfa þessum köttum að lifa áfram í sínu umhverfi í samræmi við sitt náttúrulega atgervi, í stað þess að aflífa þá eins og mörg sveitarfélög gera ennþá,” segir jafnframt í beiðninni.

Allt á sama stað

Taki Hafnarfjarðarbær vel í beiðnina er þess getið að draumastaðan fyrir samtökin væri að geta haft allt á eftirfarandi á sama stað: lager og geymslu, sóttkví, herbergi fyrir heimilislausa ketti og ketti í heimilisleit, aðstöðu fyrir dýralækni til að skoða þá, aðstöðu fyrir kettlinga og þvottahús.

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs að það óski eftir nánari kynningu á starfsemi Villikatta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert