Segir slæm vinnubrögð í Valhöll þekkt

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem mér finnst eiginlega leiðinlegast af öllu er að fólk er búið að vera að hringja í mig og segjast þekkja þessi vinnubrögð, vita hvað ég er að tala um og hafa fundið þetta á eigin skinni,“ segir Unn­ur Berg­lind Friðriks­dótt­ir, formaður Sjálf­stæðis­fé­lags Kópa­vogs, í samtali við mbl.is um deilurnar sem mynduðust um val á lista landsfundarfulltrúa í Kópavogi.

Unnur greindi frá því í Facebook-færslu í morgun að vinnu­brögð sem viðhöfð hafa verið inn­an flokks­ins hefðu gengið fram af sér en í grunninn snýst málið um að ekki hafi verið haldinn félagsfundur hjá Sjálfstæðisfélaginu til að kjósa um fulltrúa á landsfundinum. 

Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Sjálf­stæðis­fé­lags Kópa­vogs.
Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Sjálf­stæðis­fé­lags Kópa­vogs. Ljósmynd/Aðsend

Unnur hefur verið í stjórn félagsins í fimm ár. Hún segir að áhugi félagsmanna í Kópavogi á landsfundinum um helgina hafi verið mjög takmarkaður. 

„Við söfnum fólki á lista. Ég sendi út ítrekaða tölvupósta – af því að við vorum ekki að ná að fylla listana. Ég var orðin mjög stressuð að enginn frá okkar stóra bæjarfélagi væri að fara á landsfund, þannig að ég auglýsti ítrekað eftir fólki til að skrá sig.“

Unnur tekur fram að allir tölvupóstar sem hún sendir út í nafni félagsins fari í gegnum Valhöll. „Ég get ekki sent neina pósta á félagsfólkið nema í gegnum Valhöll og ég fékk aldrei neina athugasemd frá þeim.

Viðbrögð dómsmálaráðherra komu ekki á óvart

„Ég hef fengið „hótunar“-símtöl frá jakkafataklæddum mönnum innan flokksins þar af einum háttsettum sem fór langt út fyrir sitt umboð í ljósi embætti síns,“ sagði í Facebook-færslu Unnar.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra svaraði Unni í Facebook-færslu og neitaði að hafa haft í hótunum við Unni. Hann hafi átt eitt stutt símtal við hana þar sem hann hafi bent henni á ólög­mæti list­anna. 

Unnur segir að færsla Jóns hafi ekki komið sér á óvart og að óvanalegt hefði verið hefði hann viðurkennt að hafa hótað henni. 

Hefð að listinn sé ákveðinn á fulltrúaráðsfundi 

Bæði Jón og Andri Steinn Hilm­ars­son, bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í Kópa­vogi, bentu á í Facebook-færslum að í 4. tölul. 9. gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins segi að kosning landsfundarfulltrúa skuli ávallt fara fram á almennum fulltrúaráðs- eða félagsfundum og skal kosninganna getið í fundarboði.

Unnur segir að hefð hafi verið fyrir því í Kópavogi að listinn hafi verið ákveðinn á fulltrúaráðsfundi en samtals hafa öll félög Kópavogs 130 sæti á lista landsnefndarfulltrúa. 

„Núna eru allir sjálfkjörnir á listann hjá okkur. Það var engum neitað um sæti – það fengu allir sæti sem báðu um það,“ segir hún og bætir við að listinn hafi síðan verið sendur í Valhöll. „Það komu engar athugasemdir frá Valhöll.“

Valhöll fari ekki eftir skipulagsreglum

Hún segir að hún hafi alltaf reynt að sinna sínu starfi af bestu getu og um leið og orðrómur um mögulegt framboð Guðlaugs Þór Þórðarson hófst aflaði Unnur sér ráða um hvernig væri best að haga hlutunum. 

„Það er svo margt í þessum skipulagsreglum sem Valhöll var búin að brjóta fyrir – hlutir sem þeir voru ekki að fara eftir – það var því margt sem ég var hissa á. Þannig að þegar ég fæ þessa athugasemd þá fer ég að kanna málið,“ segir Unnur. 

Hún vill ekki nefna hvaða félög héldu ekki félagsfund, til þess að koma þeim ekki í sömu stöðu og Sjálfstæðisfélagið. Áður hefur þó verið greint frá því að félög sjálfstæðiskvenna og ungra sjálfstæðismanna, Edda og Týr, héldu félagsfundi eftir ábendingar þar um. Unnur segir að þeirra listar hafi verið dæmdir ógildir.

Reynt að koma aðkomufólki á listann

Unnur segir að Andri Steinn hafi verið að reyna að koma inn fólki á lista félagsins sem hefur ekki lögheimili í Kópavogi. 

„Það er eina fólkið sem ég neitaði að setja á listann. Hann var að hamast í mér að það væri hefð fyrir því að ef við myndum ekki ná að fylla okkar sæti þá yrðu settir inn aðrir frá öðru kjördæmi.“

Unnur nefnir að hvorki Jón né Andri Steinn séu yfirmenn hennar. „Ég beið eftir að heyra í Valhöll.“

Hefur ekki aðgang að endanlegum lista

Hvaða lista tók Valhöll við að lokum?

„Það er bara mjög góð spurning,“ segir Unnur og beinir spurningunni að Valhöll. 

„Við sendum lista frá okkur – sem var ekki fullur – en í dag er hann hjá Valhöll og hann er fullur. Við höfum ekki fengið aðgang að þessum lista.“ 

Innt eftir því að lokum hvernig staða hennar innan flokksins sé nú segir Unnur að atvikið hafi eðlilega svert sýn hennar á flokkstarfið. 

„Mér finnst alveg ömurlegt að vera að ásaka starfsfólkið niðri í Valhöll, en samskipti mín við þetta fólk hafa verið algjörlega fyrir neðan allar hellur. “ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert