Starfsmenn Isavia hömluðu starfi fréttafólks

Sterk ljós mættu fréttafólki Rúv á vettvangi við flugvöllinn í …
Sterk ljós mættu fréttafólki Rúv á vettvangi við flugvöllinn í gær. Skjáskot/Ruv.is

Starfsmenn Isavia reyndu ítrekað að koma í veg fyrir myndatökur tökuliðs Ríkisútvarpsins á vettvangi á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi þegar fréttamenn reyndu að fylgjast með aðgerðum lögreglu þegar hópur hælisleitenda var sendur til Grikklands. Mættu starfsmennirnir á fjölda bifreiða og flóðlýstu í átt að myndatökumanni þannig að erfitt eða ómögulegt var að sjá hvað fram fór. Upplýsingafulltrúi Isavia segir málið í skoðun og upplýsingar verði veittar síðar í dag þegar þær liggi fyrir.

Í gær hóf lögreglan nokkuð umfangsmikla aðgerð og var hópur flóttafólks sóttur með rútum og keyrður á Keflavíkurflugvöll. Líklegt er að fólkið hafi verið sent til Grikklands með flugvél, en það hefur ekki fengið staðfest.

Biðu aðalmeðferðar í máli sínu gegn ríkinu

Sema Erla Ser­d­ar, stjórn­mála- og Evr­ópu­fræðing­ur og formaður Sol­ar­is, lýsti því fyrir mbl.is í gær hvernig farið hafi verið inn á heimili fjölskyldu í gær án fyrirvara og einn fjölskyldumeðlimur settur í gæsluvarðhald. Svo hafi fjölskyldan verið flutt út á Keflavíkurflugvöll, en Sema sýndi á Twitter meðal annars frá því þegar lögregla tekur mann úr hjólastól og setur í lögreglubifreið.

Sagði Sema einnig að í gangi sé mál fjölskyldunnar gegn íslenska ríkinu, en aðalmeðferð sé sett 18. nóvember. Að sögn Semu var þeim neitað um vernd hér á landi vegna þess að þau eru nú þegar með vernd í Grikklandi. Fjöl­skyld­an stefndi þá ís­lenska rík­inu á þeim grund­velli að þeirra mati var ekki tekið til­lit til sér­stakra aðstæðna Hus­sein sem not­ast við hjóla­stól. 

Lýstu sterkum ljósum að fréttafólki

Fréttamaður og upptökumaður frá Rúv reyndu að fylgjast með aðgerðum lögreglunnar í gær og fyldu rútunum meðal annars út á Keflavíkurflugvöll. Reyndu þau þar að fylgjast með aðgerðum í gegnum girðingu á flugvellinum, en þá mættu starfsmenn Isavia á bifreiðum og lýstu með sterkum ljósum bifreiðanna og jafnvel auka kösturum í átt að fréttafólkinu.

„Þegar við fórum hérna hinu megin við til að taka myndefni þar sem við sæjum rúturnar betur og flugvélina þá komu bílar með hreinlega flóðljós á og í raun bara eltu okkur. Það var alveg sama hvert við fórum það var bara lýst þannig að við gætum alls ekki séð hvað þarna færi fram,“ lýsti Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir, því sem fram fór í frétt sem var birt á vef Rúv í morgun.

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur fengið frá Rúv stóðu aðgerðir starfsmanna Isavia allavega yfir í tæplega klukkustund.

Isavia skoðar málið eftir að hafa dregið fyrsta svar sitt til baka

Þegar mbl.is hafði samband við Gretti Gautason, upplýsingafulltrúa Isavia, til að fá upplýsingar um aðgerðir starfsmannanna og hvort það væri í takt við hefðbundið verklag sagði hann að verið væri að afla upplýsinga um málið. Sagði hann að farið yrði yfir málið og hvernig aðkoma starfsmanna að því var. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í frétt Rúv segir að upphaflega hafi Isavia sent frá sér svar til fréttastofunnar um að starfsmennirnir hefðu fylgt hefðbundnu verklagi sem beitt sé þegar vart verði um mannaferðir við flugvöllinn. Það svar var þó dregið til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert