Aðhald hjá borginni hefur ekki áhrif á borgarlínu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við mbl.is að aðhald borgarinnar í fjármálum muni ekki hafa áhrif á borgarlínu né samgöngusáttmálann.

„Borgarlínan er sérstakt mál sem er fjármögnuð með ríkinu. Það að við séum að draga saman í fjárfestingum hjá borginni hefur ekki áhrif á samgöngusáttmálann eða borgarlínu,“ segir Dagur.

„Við erum hins vegar að gefa okkur lengri tíma til undirbúa nokkur stór verkefni eins og umbreytingu á Grófarhúsi og Hafnarhús. Við erum að minnka fjárfestingaráætlunina í ljósi þeirrar þenslu sem er núna sem sést best á því að við fáum ekki einu sinni tilboð í sum verkefni.“

Út­komu­spá gerir ráð fyr­ir að rekst­ur A-hlut­a borgarinnar á þessu ári verði nei­kvæður um 15,3 millj­arða. Þá verða sett­ar á mikl­ar tak­mark­an­ir varðandi ráðning­ar á nýju starfs­fólki. 

Útgjöld umfram heimildir upp á 3 milljarða

„Stóru tölurnar í þessu eru í fyrsta lagi verðbólga. Fjármagnsliðurinn hækkar um sex milljarða. Við sjáum að velferðarsviðið og skóla- og frístundasviðið eru með útgjöld umfram heimildir upp á einn og hálfann milljarð hvort. Það tengist að mjög stóru leyti fjórðu bylgju Covid-19 faraldursins sem var á fyrstu mánuðum ársins. Síðan eru minni tölur sem tengjast snjómokstri og Strætó sem þurfti sérstakt framlag út af Covid-19,“ segir Dagur.

„Þetta eru stóru atriðin fyrir utan það að ríkið hefur ekki fjármagnað málaflokk fatlaðs fólks eins og við bjuggumst við og ekki einu sinni til hálfs.

Þessi atriði valda því að hallinn sem við bjuggumst við að yrði þrír milljarðar stefnir í 15.“

„Með því að spá þessum 15 milljörðum fyrir A-hlutann erum við ekki að segja að A- og B-hluti endi í 15 milljarða halla. B-hlutinn mun koma miklu betur út og jafnvel vinna upp þetta þegar við horfum á Reykjavíkurborg í heild sinni.“

Verðbólgan umfram spám Hagstofunnar

„Sveitarfélögin nota spá Hagstofunnar um verðbólgu og eru skuldbundin til þess í sínum áætlunum og verðbólgan var þetta mikil umfram spár Hagstofunnar á þessu ári. Þetta breytir bókunum, ekki bara hjá Reykjavíkurborg, heldur hjá öllum sveitarfélögum á landinu. Við sjáum það í 6 mánaða uppgjörum þeirra að sömu kraftar hafa verið að auka hallann hjá þeim,“ segir Dagur.

Hann segir umræðu um fjármál borgarinnar í vor hafi mikið verið á grundvelli ársreiknings og þar hafi niðurstaðan verið betri en búist var við.

„Að mörgu leyti hefur tekist að sigla vel í gegnum þessi Covid-19 ár en þá verður að muna að það var tekin pólitísk ákvörðun á Íslandi að standa í raun ekki með sveitarfélögum og láta þau ekki hafa fyrir auknum útgjöldum vegna Covid-19 og ekki vegna tekjufallsins heldur þurftu þau bara að reka sig í halla og auka skuldir sínar en voru jafnframt hvött til þess að auka fjárfestingar.

Íslenska leiðin í gegnum Covid-19 var ólík Norðurlöndum að þessu leyti þegar kemur að sveitarfélögum,“ segir Dagur.

Lægstu fasteignagjöldin í 10 ár

„Við höfum verið með lægstu fasteignagjöldin á íbúðarhúsnæði í 10 ár miðað við flest þessara nágrannasveitarfélaga. Við höldum áfram að vera með þeim lægstu. Við munum fylgjast með því hvort einhverjir séu að lækka sig í átt að okkur. Það er yfirlýst stefna okkar að það sé hagstæðast að búa í Reykjavík, sérstaklega fyrir barnafjölskyldur.

Við erum ekki að hækka gjaldskrá á leiksskólum nema til þess að halda í við verðlag. Það sama gildir um frístundaheimilin og aðra starfsemi. Ég held að þegar öll sveitarfélögin verða búin að leggja fram sínar fjárhagsáætlanir að það verði hagstæðast fyrir barnafjölskyldur að búa í Reykjavík.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert